Fótbolti

Fékk gult spjald fyrir að buffa áhorfanda sem hljóp inn á völlinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má flaug áhorfandinn á hausinn eftir tæklingu Sams Kerr.
Eins og sjá má flaug áhorfandinn á hausinn eftir tæklingu Sams Kerr. getty/John Walton

Ástralska fótboltakonan Sam Kerr fékk gult spjald fyrir nokkuð óvenjulegar sakir í leik Chelsea og Juventus í Meistaradeild Evrópu í gær.

Ungur áhorfandi hljóp óáreittur inn á völlinn til að fá mynd af sér með Magdalenu Eriksson, fyrirliði Chelsea. Hann vappaði nokkra stund um völlinn með símann á lofti og tók nokkrar myndir.

Á endanum fékk Kerr nóg af áhorfandanum og keyrði öxlina í hann með þeim afleiðingum að hann féll í grasið.

Fyrir þetta fékk Kerr gult spjald, líklega sanngjarnt þótt hún hafi bara gert það sem öryggisverðirnir á vellinum hefðu átt að gera. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Leiknum á Kingsmeadow í London í gær lyktaði með markalausu jafntefli. Chelsea er á toppi A-riðils með ellefu stig en Juventus í 2. sætinu með átta stig, jafn mörg og Wolfsburg sem vann Servette í gær, 0-3.

Í lokaumferð riðlakeppninnar mætast Wolfsburg og Chelsea annars vegar og Juventus og Servette hins vegar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.