Innlent

Gera út­tekt á Hugar­afli í kjöl­far á­sakana

Eiður Þór Árnason skrifar
Málið kom inn á borð félagsmálaráðuneytisins í ágúst. 
Málið kom inn á borð félagsmálaráðuneytisins í ágúst.  Vísir/vilhelm

Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir því að Vinnumálastofnun geri úttekt á starfsemi Hugarafls í kjölfar ábendinga og kvartana frá fyrrverandi félagsmönnum samtakanna.

Sex fyrrverandi félagsmenn Hugarafls sendu í ágúst greinargerðir á ráðuneytið vegna starfs- og stjórnunarhátta samtakanna. Í kjölfarið barst ráðuneytinu beiðni frá Hugarafli um að gerð yrði óháð úttekt á samtökunum. 

Fyrrverandi félagsmenn segja framkomu stjórnenda hafa verið eitraða og að hún hafi meðal annars lýst sér í einelti og ógnarstjórnun gegn almennum félagsmönnum. Forsvarsmenn Hugarafls hafa frá upphafi hafnað ásökununum.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra sagði í september að til skoðunar væri hvort og þá til hvaða ráðstafana yrði gripið vegna athugasemdanna.

Fram kom í svari ráðuneytisins þann 22. nóvember að fulltrúar þess hafi í þrígang fundað með fyrrverandi félagsmönnum Hugarafls sem afhentu ráðuneytinu greinargerðirnar. Fleiri félagsmenn Hugarafls, bæði núverandi og fyrrverandi, hafi í kjölfarið sett sig í samband við ráðuneytið og lýst upplifun sinni af Hugarafli.

Mikilvægt að það sé hafið yfir vafa að starfsemin uppfylli kröfur

Í gildi er þjónustusamningur milli Vinnumálastofnunar og Hugarafls um að samtökin veiti þjónustu á sviði starfsendurhæfingar fyrir fólk með geðraskanir.

Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að félagsmálaráðuneytið telji mikilvægt að hafið sé yfir vafa að starfsemi sem sé veitt á grundvelli samningsins uppfylli opinberar kröfur um faglega þjónustu, rekstur og eftirlit og að tryggt sé að þar sé veitt góð og viðurkennd starfsendurhæfing.

„Með hliðsjón af ábendingunum og með vísan til beiðni Hugarafls um úttekt telur ráðuneytið rétt að Vinnumálastofnun ráðist í úttekt á starfsemi samtakanna, en ákvæði þess efnis eru í samningi stofnunarinnar við samtökin.“

Sævar Þór Jónsson, lögmaður Hugarafls, sagði í nóvember að félagið hafi lagt fram kæru hjá lögreglu vegna alvarlegra hótana í garð starfsfólks og stjórnarmanna Hugarafls.

Félagsmálaráðuneytið styrkti Hugarafl um átta milljónir króna í lok síðasta árs. Sá styrkur snýr að rekstri opins úrræðis þetta ár og það næsta.

Stefán Þór Stefánsson tjáði sig um reynslu sína af starfsemi Hugarafls í Íslandi í dag í september. Hann kynntist Hugarafli árið 2015, varð virkur í starfsemi og kynnist unnustu sinni sem svipti sig lífi fyrr á árinu. Unnustan, Tinna Finnsdóttir, hafði verið skjólstæðingur Hugarafls og er að sögn Stefáns ein þeirra sem hlaut mjög ómaklega meðferð af hálfu stjórnenda samtakanna.

Hugarafl segist í yfirlýsingu þann 10. desember fagna skjótri afgreiðslu ráðherra um faglega úttekt. Yfirlýsinguna má sjá að neðan.

Eins og greint var frá í frétt á vef Stjórnarráðsins í vikunni, hinn 8. desember, hefur félagsmálaráðuneytið nú óskað eftir því við Vinnumálastofnun að gerð verði úttekt á starfsemi Hugarafls í kjölfar ábendinga og kvartana frá nokkrum fyrrum félagsmönnum samtakanna, sem sendu ráðuneytinu greinargerð þess efnis í haust.

Stjórn Hugarafls fagnar mjög þessari skjótu ákvörðun sem nýr félagsmálaráðherra hefur tekið í málinu enda er hún í samræmi við ítrekaðar óskir stjórnar og starfsfólks Hugarafls frá upphafi þessa máls.

Jafnframt tekur stjórn Hugarafls undir þau orð í tilkynningu ráðuneytisins að „mikilvægt [sé] að hafið sé yfir vafa að starfsemi sem sé veitt á grundvelli samningsins [milli Vinnumálastofnunar og Hugarafls] uppfylli opinberar kröfur um faglega þjónustu, rekstur og eftirlit og að tryggt sé að þar sé veitt góð og viðurkennd starfsendurhæfing.“

Málið snertir hagsmuni um eitt þúsundfélagsmanna Hugarafls og bataferli þeirra. Þar sem um er að ræða viðkvæma starfsemi vill stjórn Hugarafls eyða allri óvissu og telja mikilvægt að fá botn í málið. Þar af leiðandi er mikilvægt að úttekt Vinnumálastofnunar á starfsemi Hugarafls fari fram.

Fréttin var uppfærð þann 10. desember með yfirlýsingu Hugarafls.


Tengdar fréttir

Bata­ferli fjöl­margra skjól­stæðinga Hugar­afls er í húfi

Í byrjun júlí bárust félagsmálaráðuneytinu greinargerðir sex fyrrverandi skjólstæðinga félagasamtakanna Hugarafls, þar sem stjórnendur samtakanna eru bornir þungum sökum um meint einelti og ógnarstjórnun gagnvart almennum félagsmönnum.

Hefur kært hótanir í garð Hugar­afls­fólks til lög­reglu

Lögmaður Hugarafls segir félagsmálaráðuneytið ekki ætla að rannsaka ásakanir fyrrum skjólstæðinga um eitraða menningu frekar. Fyrrum skjólstæðingur segist ekki hafa fengið þau svör þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir til ráðuneytisins. Hann fullyrðir að þau muni fara með málið lengra.

Kvarta yfir „eitraðri framkomu“ stjórnenda Hugarafls

Sex fyrrverandi skjólstæðingar grasrótarsamtakanna Hugarafls sendu nýverið greinargerðir á félagsmálaráðuneytið vegna starfs- og stjórnunarhátta samtakanna og framkomu formanns gagnvart félagsmönnum. Hópurinn segir framkomu stjórnenda samtakanna eitraða og hún lýsi sér meðal annars í einelti og ógnarstjórnun gegn almennum félagsmönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×