Magomed Ozdoev tryggði Juventus toppsætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magomed Ozdoev tryggði Zenit stig gegn Chelsea og tryggði Juventus sömuleiðis toppsæti H-riðils.
Magomed Ozdoev tryggði Zenit stig gegn Chelsea og tryggði Juventus sömuleiðis toppsæti H-riðils. Mike Kireev/Getty Images

Timo Werner skoraði tvívegis er Chelsea gerði 3-3 jafntefli á útivelli við Zenit St. Pétursborg í H-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Það þýddi að Juventus vann riðilinn þökk sé 1-0 sigri á Malmö.

Fyrir leiki kvöldsins var ljóst hvaða lið færu áfram úr H-riðli en enn átti eftir að skera úr um hvort Chelsea eða Juventus myndi vinna riðilinn.

Timo Werner kom Chelsea yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik í Rússlandi. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum frá Claudinho og Sardar Azmoun áður en fyrri hálfleikur var út. Staðan 2-1 í hálfleik.

Romely Lukaku jafnaði metin eftir klukkustundarleik eftir sendingu frá Werner. Fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Werner sitt annað mark í leiknum og virtist vera að tryggja Chelsea sigurinn.

Undir lok uppbótartíma skoppaði boltinn til Magomed Ozdoev sem lét vaða í fyrsta og söng blaðran í netinu, staðan orðin 3-3 og reyndust það lokatölur.

Á Ítalíu vann Juventus 1-0 sigur á Malmö þökk sé marki Moise Kean á 18. mínútu. Sá sigur dugði Juventus til sigurs í H-riðli á meðan Chelsea er í 2. sæti og Zenit fer í Evrópudeildina. Malmö hefur hins vegar lokið þátttöku sinni í Evrópu á þessari leiktíð.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira