Innlent

Sér fyrir sér að fólk með örvunar­skammt sleppi við fjölda­tak­markanir og hrað­próf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óvissutíma sem stendur. Hann sér þó ýmsar tilslakanir í kortunum reynist omíkron afbrigðið ekki verr en fyrri afbrigði kórónuveirunnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óvissutíma sem stendur. Hann sér þó ýmsar tilslakanir í kortunum reynist omíkron afbrigðið ekki verr en fyrri afbrigði kórónuveirunnar. Vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra að viðhalda óbreyttum sóttvarnaráðstöfunum í nokkrar vikur frá og með 9. desember. Ráðherra ákvað að framlengja núverandi aðgerðir um tvær vikur.

Fram kemur í minnisblaðinu sem Þórólfur sendi Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra um helgina að miklir óvissutímar væru í gangi. Bæði hvað varði núverandi bylgju af völdum delta afbrigðis kórónuveirunnar en líka þá þróun sem kunni að verða á faraldrinum með tilkomu omíkron afbrigðisins.

Sú staða kunni að koma upp að omíkron afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði, valdi verri sjúkdómi og að bóluefni og fyrri sýking verndi ekki gegn smiti. Þessi óvissa gefi tilefni til að fara varlega í tilslökun innanlands og á landamærum sem stendur.

Þórólfur segir þó í lok minnisblaðsins að þegar eiginleikar omíkron afbrigðisins skýrist betur verði hægt að endurmeta aðgerðir. Ef ljóst sé að afbrigðið valdi ekki skæðum sjúkdómi og að bólusetning og fyrra smit verndi þá verði komnar faglegar forsendur til að skoða eftirfarandi:

1. Undanskilja þá sem fengið hafa örvunarskammt frá fjöldatakmörkum og hraðgreininga- eða PCR prófum fyrir viðburði.

2. Endurskoða sóttkvíarreglur fyrir þá sem fengið hafa örvunarskammt.

3. Undanskilja börn yngri en 16 ára sem fengið hafa grunnbólusetningu (tvo skammta) frá fjöldatakmörkunum og hraðgreininga- eða PCR prófum fyrir viðburði.

4. Endurskoða reglur um sóttkví fyrir full bólusett börn.

Framlengdar aðgerðir taka gildi 9. desember og gilda til 23. desember. Willum Þór sagði í viðtali við fréttastofu í dag að hann bindi vonir við að geta aflétt takmörkunum fyrir þann tíma ef hann hafi gögn til að styðja slíkar aðgerðir.

Minnisblað sóttvarnalæknis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.