Innlent

Minnkandi líkur á gosi í Grímsvötnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Axelsson, ljósmyndari Vísis, hefur flogið yfir Vatnajökul undanfarna daga og fylgst með gangi mála.
Ragnar Axelsson, ljósmyndari Vísis, hefur flogið yfir Vatnajökul undanfarna daga og fylgst með gangi mála. Vísir/RAX

Veðurstofan hefur fært fluglitakóða fyrir Grímsvötn niður á gult. Í kjölfar aukinnar skjálftavirkni í gærmorgun, þar sem meðal annars mældist skjálfti af stærð 3,6 sem er óvenjustór fyrir Grímsvötn, var fluglitakóðinn settur á appelsínugult í gær.

Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Þar segir að Grímsvötn séu langvirkasta eldfjallakerfi landsins og í fyrri gosum hafi aðdragandi yfirleitt verið stuttur að gosum þar. 

„Því er ástæða til að bregðast hratt við þegar eldstöðin sýnir virkni sem ekki telst til svokallaðrar „bakgrunnsvirkni“. Sem dæmi um viðbragð við þeirri virkni var að færa fluglitakóða fyrir Grímsvötn af gulu yfir á appelsínugult,“ segir á vef Veðurstofunnar.

 Fluglitakóðinn hefur nú verið færður aftur niður á gult þar sem dregið hefur úr skjálftavirkni og eldstöðin sýnir engin önnur merki um að gos sé yfirvofandi.

Vísindamenn munu þó halda áfram að beina sjónum sínum að Grímsvötnum. Stefnt er að útsýnisflugi í dag eða á morgun, m.a. til að skoða betur nýjan sigketil sem myndaðist suðaustur af Grímsfjalli.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunnar á Veðurstofunni, sagði í samtali við RÚV í morgun að skjálftarnir í gær hefðu verið týpískur undanfari eldgoss. Full ástæða hafi verið til að bregðast við. En nú minnki líkurnar á því að hlaup setji af stað eldgos með hverjum deginum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.