Innlent

Heldur starfinu en þarf að greiða sekt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi handtökunnar í Hafnarfirði í fyrra.
Frá vettvangi handtökunnar í Hafnarfirði í fyrra. Aðsend

Lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu sem leystur var frá störfum í nóvember í fyrra vegna framkvæmdar handtöku í Hafnarfirði er aftur kominn til starfa. Hann þarf að greiða eitt hundrað þúsund króna sekt vegna þess hvernig hann beitti kylfu sinni.

Fréttablaðið greindi frá málinu á forsíðu sinni þann 6. nóvember í fyrra.

Umræddur maður hafði verið stöðvaður vegna gruns um vörslu fíkniefna. Sagðist hann vera með Covid-19. Var haft eftir ónafngreindum sjónarvottum að fjórir lögreglumenn sem handtóku manninn við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði hefðu gengið allt of langt í aðgerðum sínum. Sökuðu þeir lögreglumennina um gróft ofbeldi.

Lýstu þeir því hvernig einn lögreglumannannana hefði slegið inn handtekna ítrekað í höfuðið með kylfu þar til hann rotaðist og féll í jörðina.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísaði málinu til héraðssaksóknara og var lögreglumaðurinn sendur í tímabundið leyfi. Meðal sönnunargagna í málinu voru upptökur úr búkmyndavél lögreglu.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í svari við skriflegri fyrirspurn Fréttablaðsins að héraðssaksóknari hafi skoðað málið en það verið fellt niður. Sú niðurstaða hafi verið kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti niðurfellinguna að mestu leyti í haust.

Hins vegar hafi ríkissaksóknari ekki fallist á niðurfellingu varðandi hvernig lögreglumaðurinn lokaði kylfu sinni með því að ýta henni í bak hins handtekna. Þeim þætti málsins hafi verið lokið með sektargerð upp á eitt hundrað þúsund krónur.

Málið rataði einnig inn á borð Nefndar um eftirlit með lögreglu sem getur nú tekið það fyrir þar sem meðferð málsins hjá ákæruvaldinu er lokið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×