Innlent

Fyrr­verandi bæjar­stjóri dæmdur fyrir meiri­háttar skatta­laga­brot

Atli Ísleifsson skrifar
Jónmundur Guðmarsson er meðal annars fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson er meðal annars fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

Jónmundur Guðmarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi og greiðslu 66,5 milljóna króna sektar vegna meiriháttar brota á skatta- og bókhaldslögum. Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar haldi Jónmundur almennt skilorð í tvö ár.

Dómurinn yfir Jónmundi féll í Héraðsdómi Reykjaness í lok nóvember, en hann var birtur í dag. Brotin sem Jónmundur var dæmdur fyrir sneru að samlagsfélagsins Polygon, en Jónmundur var ábyrgðaraðili og 99 prósent eigandi félagsins.

Í ákæru segir að Jónmundur hafi staðið efnislega skil röngum skattframtölum félagsins gjaldárin 2015 til og með 2017 með því að færa til gjalda tilhæfulausan kostnað. Á hann að hafa oftalið í skattskilum rekstrargjöld félagsins um samtals tæpum 95 milljónum króna.

Jónmundur krafðist sýknu í málinu en játaði fyrir dómi að hafa offramtalið rekstrargjöld, en að sú heildarfjárhæð sem fram kæmi í ákærðu væri of há. Var það niðurstaða dómsins að við ákvörðun refsingar skyldi leggja til grundvallar að offramtalin rekstrargjöld Polygon á tímabilinu hafi numið 61,5 milljónum króna.

Jónmundur var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi á árunum 2002 til 2009 og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins árin 2009 til 2014. Hann var ráðinn í starf framkvæmdastjóra hjá GAMMA árið 2016 og varð forstöðumaður sölu og viðskiptatengsla hjá eignastýringu Kviku þegar Kvika tók yfir GAMMA árið 2019.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×