Erlent

Gerir ráð fyrir að Omíkron verði ráðandi afbrigðið á Bretlandseyjum á næstu vikum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnendur innan breska heilbrigðiskerfisins hafa hvatt stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að hamla útbreiðslu Omíkron en ef marka má Hunter er á brattann að sækja.
Stjórnendur innan breska heilbrigðiskerfisins hafa hvatt stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að hamla útbreiðslu Omíkron en ef marka má Hunter er á brattann að sækja. epa/Andy Rain

Breskur smitsjúkdómasérfræðingur segist gera ráð fyrir því að Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar verði orðið ráðandi á Bretlandseyjum á næstu vikum eða mánuði.

Paul Hunter, sérfræðingur í smitsjúkdómum við University of East Anglia, sagði í samtali við BBC Breakfast í morgun að Omíkron væri nú að dreifa sér hraðar en Delta-afbrigðið í Suður-Afríku, þar sem fyrst var tilkynnt um það.

„Hvernig það mun dreifa sér í Bretlandi er enn óvíst en ég tel fyrstu merki gefa til kynna að það muni breiða úr sér mjög fljótt og líklega ná Delta og verða ráðandi afbrigðið á næstu vikum eða mánuði,“ sagði Hunter.

Hann sagði stóru spurninguna hins vegar hversu skaðlegt nýja afbrigðið væri.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 246 greinst með Omíkron-afbrigði SARS-CoV-2 á Bretlandseyjum en Hunter segist telja fjöldan raunverulega yfir þúsund.

Hann segir ferðatakmarkanir munu hafa einhver en minniháttar áhrif á útbreiðslu afbrigðisins.

Hunter sagðist ekki endilega sammála þeirri staðhæfingu að Bretar væru nú nær upphafi faraldursins en endalokum hans en sagði kórónuveiruna komna til að vera. Síðasti kórónuveirufaraldur hefði líklega geisað fyrir 130 árum og sú veira gengi enn manna á milli en væri nú aðeins eins og hefðbundin kvefpest.

„Það er líklega sú átt sem þessi faraldur er að þróast í, þannig að við smitumst endalaust af Covid, af nýjum afbrigðum, en þau munu aðallega vara valda venjulegu kvefi.“

BBC greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.