Fótbolti

Tók Börsunga sinn tíma að brjóta ísinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jennifer Hermoso kom Börsungum á bragðið.
Jennifer Hermoso kom Börsungum á bragðið. Fran Santiago/Getty Images

Evrópu- og Spánarmeistarar Barcelona unnu sannfærandi 4-0 sigur á Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sigurinn var þó ef til vill ekki jafn sannfærandi og raun bar vitni.

Bilbao mætti með plan til Katalóníu og gekk það upp í 50 mínútur. Eftir markalausan fyrri hálfleik tók það Evrópumeistarana aðeins fimm mínútur að brjóta ísinn í síðari hálfleik. Þar var að verki Jennifer Hermoso en hún varð önnur í valinu um Gullknöttinn á dögunum.

Alexia Putellas, handhafi Gullknattarins árið 2021, var fjarri góðu gamni í dag og útskýrir það mögulega af hverju Börsungar voru svona lengi að ganga frá gestunum. Hermoso bætti við öðru marki þegar stundarfjórðungur lifði leiks og staðan orðin 2-0.

Þær Claudia Pina og Aitana Bonmati bættu við mörkum undir lok leiks, lokatölur 4-0.

 Barcelona því enn með fullt hús stiga að loknum 12 umferðum. Ekki nóg með það heldur er markatala liðsins 72-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×