Innlent

Ekki víst að fjárlög verði afgreidd fyrir jól

Heimir Már Pétursson skrifar
Fundað var um fjárlagafrumvarpið til um klukkan ellefu í gærkvöldi. Formaður fjárlaganefndar vonar að fyrstu umræðu ljúki í dag þannig að fjárlaganefnd geti hafið störf að alvöru á morgun.
Fundað var um fjárlagafrumvarpið til um klukkan ellefu í gærkvöldi. Formaður fjárlaganefndar vonar að fyrstu umræðu ljúki í dag þannig að fjárlaganefnd geti hafið störf að alvöru á morgun. Vísir/Vilhelm

Formaður fjárlaganefndar gerir ráð fyrir að fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið ljúki í dag. Það hafi verið klaufaskapur að senda frumvarpið út til umsagnar áður en umræður hófust um það á Alþingi og hún hafi lært af þeirri reynslu. Hugsanlegt er að Alþingi þurfi að funda á milli jóla og nýárs.

Fyrsta umræða um fyrsta fjárlagafrumvarp endurnýjaðrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hófst fyrir hádegi í gær og stóð til um klukkan ellefu í gærkvöldi. Fjárlaganefnd kom síðan saman til síns fyrsta fundar klukkan níu í morgun áður en umræðunni var framhaldið á Alþingi klukkan hálf ellefu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nýr formaður fjárlaganefndar varð fyrir mikilli gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrir umræðuna í gær þegar ljóst varð að hún hafði sent frumvarpið til aðila úti í samfélaginu til umsagnar með fresti til athugasemda til 9. desember áður en umræður hófust um frumvarpið á þingi og áður en fjárlaganefnd hafði náð að funda. Hún baðst ítrekað afsökunar á þessu í umræðunni í gær.

Var þetta einlægur klaufaskapur eða var þetta skipulagt eins og sumir þingmenn vildu halda?

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður fjárlaganefndar segir ekki útilokað að nýta þurfi vikuna milli jóla og nýárs til að ljúka fjárlagavinnunni.Vísir/Vilhelm

„Nei, nei þetta var algerlega einlægur klaufaskapur. Því ég ætlaði bara að flýta fyrir okkur þannig að við gætum hafið vinnuna sem allra fyrst um leið og málinu lyki. En auðvitað á ekki að vinna þetta svona og svona á ekki að gera þetta. Þetta er bara lexía fyrir mig að hafa gengið í gegnum þetta,“ segir Bjarkey.

Það hafi ekki orðið neinir eftirmálar af þessu á fjárlaganefndarfundi í morgun.

„Við svo sem bara ræddum það hvort umræðum myndi ljúka í dag. Ég ætla að leyfa mér að gera ráð fyrir að svo verði. Ef svo þá munum við reyna að funda (í nefndinni) aftur í fyrramálið. Þannig að það er góður andi í nefndinni og allir til í slaginn sýnist mér,“ segir formaður frjárlaganefndar.

Þeir hagsmunaaðilar sem hafi fengið frest til athugasemda til 9. desember haldi honum en aðrir sem bætist við fái frest í einhverja daga til viðbótar.

Bjarkey reiknar ekki með miklum breytingum á frumvarpinu nema þeim sem tengist breytingum á stjórnarráðinu. Það komi þó í ljós í vinnu nefndarinnar.

Í dag eru aðeins þrjár vikur til jóla. Bjarkey segir nefndina gera sitt besta til að klára fjárlagavinnuna þannig að fjárlög verði samþykkt fyrir jól.

„Ég er ekkert sannfærð um það. Það er auðvitað heil vinnuvika á milli jóla og nýárs. Mér finnst að við þurfum að vanda okkur. Við verðum bara að sjá til hvort að það gengur eftir að klára fyrir jól eða hvort við þurfum að fara á milli jóla og nýárs. Það eru líka eins og ég segi miklar tæknilegar breytingar og annað slíkt sem þarf að eiga sér stað. Það þarf bara að vanda sig svo þetta gangi allt saman heim og saman,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


Tengdar fréttir

Tekist á um fjárlagafrumvarp undir tímapressu á Alþingi

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst í dag. Fjármálaráðherra segir frumvarpið styðja við uppbyggingu á flestum sviðum og góða opinbera þjónustu án þess að skera þurfi niður eða hækka skatta. Stjórnarandstaðan segir frumvarpið hins vegar marka kyrrstöðu og samdrátt á sumum sviðum.

Skipað í nefndir og ruglast á sætanúmerum á Alþingi

Birgir Ármannsson var í dag kjörinn forseti Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn fer með formennsku í þremur fastanefndum þingsins, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn í tveimur hvor um sig og stjórnarandstaðan í einni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×