Enski boltinn

„Eina sekúndu eftir miðnætti þurfum við að byrja að hugsa um næsta leik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte fagnaði mörkum Tottenham vel og innilega í kvöld.
Antonio Conte fagnaði mörkum Tottenham vel og innilega í kvöld. Marc Atkins/Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, var eðlilega kátur með 2-0 sigur sinna manna gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann segir að stigin séu mikilvæg fyrir sjálfstraust liðsins.

„Þetta var góður sigur. Að ná í þrjú stig í kvöld var mjög mikilvægt,“ sagði Conte í leikslok. „Ef þú ert ekki tilbúinn í það að spila á móti Brentford þá þarftu að þjást.“

„Við spiluðum góðan leik og fengum færi til að vinna stærra en við verðum að vera sáttir við spilamennskuna. Stigin eru mikilvæg fyrir sjálfstraust stuðningsmannanna og okkar og gefur okkur trú á verkefninu sem við erum að vinna að á hverjum degi.“

Conte hrósaði leikmönnum sínum og segir þá sýna mikinn vilja til að bæta sig. Hann bætti einnig við að þó að menn geti notið sigursins í kvöld þá nái þau fagnaðarlæti ekki lengra en það.

„Eftir fjórar vikur hjá klúbbnum hef ég bara gott að segja af leikmönnunum. Þeir sýna mikinn vilja, skuldbindingu og þrá. Núna er mikilvægt að einblína á deildina.“

„Við getum notið sigursins fram að miðnætti, en eina sekúndu eftir miðnætti þurfum við að byrja að hugsa um næsta leik á sunnudaginn. Við þurfum þrjú stig af því að það er eina leiðin til að halda okkur nálægt efsta hluta töflunnar.“

Conte var svo spurður út í framherja liðsins, Harry Kane, en þessi mikli markahrókur hefur aðeins skorað eitt mark í deildinni á þessu tímabili. Þjálfarinn segist þó ekki hafa áhyggjur af honum.

„Ég hef engar áhyggjur af Harry Kane. Hann spilaði vel í kvöld. Hann fékk tækifæri til þess að skora, en markmaðurinn var virkilega góður. Að hafa leikmann eins og Kane sem spilar með jafn mikilli ástríðu og hann gerir mig mjög glaðan með hans frammistöðu.“

„Það skiptir ekki máli hvort að hann skori svo lengi sem hann spilar eins og hann gerði í kvöld. Tottenham er það fyrsta sem við þurfum að hugsa um,“ sagði Conte að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.