Fótbolti

Norsku stelpurnar unnu leikinn sem fór fram í tveimur mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þokan var þétt eins og sjá má á þessari mynd þegar dómari leiddi liðin af velli.
Þokan var þétt eins og sjá má á þessari mynd þegar dómari leiddi liðin af velli. AP/Hakob Berberyan

Norska kvennalandsliðið í fótbolta vann 10-0 útisigur á Armeníu í síðasta leik liðsins á árinu en þetta var mjög óvenjulegur leikur.

Liðin voru að mætast í undankeppni HM en Ísland vann Kýpur í sömu keppni í gær.

Það er ekki nóg með að það að leikur norsku stelpnanna hafi farið fram á tveimur dögum þá fór hann fram í tveimur mánuðum.

Leikurinn hófst í gær 30. nóvember en endaði í dag, 1. desember.

Dómari leiksins, Victoria Beyer frá Frakklandi, þurfti að stöðva leikinn í gær eftir sjötíu mínútna leiks af því að þokan á vellinum í Armeníu var orðin svo þétt að ekki sást á milli vítateiganna.

Norska liðið var þá komið í 9-0 og sigurinn fyrir löngu í höfn.

Beyer dómari beið um tíma til að athuga hvort að leikurinn gæti klárast í gær en svo fór ekki.

Liðin þurftu því að mæta aftur í morgun til þess að klára leikinn.

Norsku stelpurnar fengu strax vítaspyrnu og skoruðu tíunda markið sitt úr henni. Þannig urðu lokatölurnar.

Norska liðið er á toppi síns riðils með sextán stig í húsi af átján mögulegum og með markatöluna 34-0.

Hin norsk-íslenska María Þórisdóttir sat allan leikinn á varamannabekknum.

Elisabeth Terland og Lisa-Marie Utland skoruðu báðar tvö mörk í gær og hin mörkin skoruðu þær Frida Maanum, Guro Reiten, Anja Sønstevold, Guro Bergsvand og Celin Bizet Ildhusøy. Markið í dag skoraði fyrirliðinn Ingrid Syrstad Engen úr víti sem hún fékk sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×