Fótbolti

Leikur norska kvennalandsliðsins í fótbolta stöðvaður vegna þoku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fagna einu af mörkunum sínum í þokunni í Jerevan í kvöld.
Norsku stelpurnar fagna einu af mörkunum sínum í þokunni í Jerevan í kvöld. AP/Hakob Berberyan)

Leikur Armeníu og Noregs í undankeppni HM kvenna í fótbolta fer fram við erfiðar aðstæður í Jerevan og það endaði með að dómarinn stöðvaði leikinn. Nú er búið að ákveða að leikurinn verður ekki kláraður fyrr en á morgun.

Norska liðið var komið í 9-0 eftir sjötíu mínútna leik en þá var þokan orðin svo þétt að ekki sást á milli vítateiganna. Það sást vel allan fyrri hálfleikinn og framan af þeim síðari en þá lagðist þokan yfir völlinn.

Dómari leiksins hætti að sjá á milli vítateiganna og ákvað því að stöðva leikinn. Leikurinn er í beinni útsendingu í norska sjónvarpinu og það sást vel að þokan er mjög þétt. Norsku lýsendurnir sáu eiginlega ekki hver skoraði níunda markið.

Um tíma leit út fyrir að dómarinn ætlaði að senda liðin út á völlinn aftur en með litaðan bolta og að norsku stelpurnar myndu spila í skærgrænum verstum.

Þokan þéttist þá enn meira og dómarinn tak alla leikmenn liðanna aftur inn í búningsklefa.

Dómarinn ætlaði þá að bíða að sjá hvort þokunni létti eða hvort þurfi að spila leikinn á morgun. Hún hafði 45 mínútur upp á að hlaupa eftir að hún stöðvaði leikinn en klukkan 15.15 var ákveðið að leikurinn verði ekki kláraður fyrr en á morgun.

Elisabeth Terland (2 mörk), Lisa-Marie Utland (2), Frida Leonhardsen-Maanum, Guro Reiten, Anja Sønstevold, Guro Bergsvand og Celin Bizet Ildhusoy höfðu allar skorað fyrir norska liðið og úrslitin löngu ráðin.

Noregur vann 10-0 sigur í fyrri leik liðanna í Noregi en norska liðið hefur náð í þrettán af fimmtán mögulegum stigum í riðlinum.

Armenía hefur hvorki fengið stig né skorað mark í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×