Fótbolti

Ancelotti: Markið hans Vinicius Junior sýnir að hann getur orðið sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid á móti Sevilla í gær.
Vinicius Junior fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid á móti Sevilla í gær. AP/Manu Fernandez

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, var heldur betur sáttur með brasilíska framherjann Vinicius Junior eftir dramatískan 2-1 sigur Real Madrid í toppslag á móti Sevilla í gær.

Vinicius skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok með frábæru marki en Real Madrid liðið lenti undir í leiknum.

Þetta var níunda deildarmark Vinicius á leiktíðinni en Karim Benzema hafði áður jafnað metin. Saman hafa þeir tveir farið á kostum og eru komnir með samtals tuttugu mörk.

Vinicius Junior er enn bara 21 árs gamall og hann sýndi afburðar hæfileika í sigurmarkinu. Hann fékk boltann út á vinstri kanti, tók boltann niður á kassann, keyrði inn á völlinn og lét síðan vaða með frábæru óverjandi hægri fótar skoti framhjá Bono í marki Sevilla.

„Stórkostlegt mark,“ sagði Carlo Ancelotti á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart með Vinicius eru gæði hans í markaskorun. Það kemur ekki á óvart að hann hafi mikla einstaklingshæfileika. Ég vissi að hann væri góður í rekja boltann, í stöðunni einn á móti einum og með mikinn hraða en hann hefur komið öllum á óvart með því hvað hann getur nú skorað mikið af mörkum,“ sagði Ancelotti.

„Vinicius sýndi í dag gæði sem hann hefur að ég held aldrei sýnt áður. Þetta var enn eitt skref hans í átt að því að verða sá besti í heimi. Markið hans sýnir að hann getur orðið sá besti í heimi. Það mikilvægasta er að hann sé einbeittur á það að vera skilvirkur. Þegar tækifærið kemur þá verður þú að nýta það,“ sagði Ancelotti.

Vinicius Junior er fæddur í júlí 2000 en hann hefur verið hjá Real Madrid frá árinu 2018. Hann skoraði bara 3 mörk í 35 deildarleikjum í fyrra en er kominn með 9 mörk í 14 leikjum á þessu tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.