Fótbolti

Van der Vaart um Messi: „Skammastu þín ekkert?“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Raphael van der Vaart, fyrrverandi miðjumaður hollenska landsliðsins, hefur sakað Lionel Messi um leti.
Raphael van der Vaart, fyrrverandi miðjumaður hollenska landsliðsins, hefur sakað Lionel Messi um leti. James Gill - Danehouse/Getty Images

Raphael van der Vaart, fyrrverandi miðjumaður hollenska landsliðsins, var ekki hrifinn af frammistöðu Lionel Messi í leik Paris Saint-Germain og Manchester City í Meistaradeild Evrópu í vikunni. 

Van der Vaart lék á sínum tíma fyrir Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, eftir að hafa eytt tveimur árum hjá Real Madrid á Spáni. Eftir leik PSG og City gagnrýndi hann einn besta leikmann sögunnar, Lionel Messi, og sagði hann latann.

„Hann á það til að fá sér göngutúr á vellinum og þá hugsa ég með mér: 'skammastu þín ekkert?'“ sagði van der Vaart í setti hjá hollensku sjónvarpsstöðinni Ziggo Sport.

„Ég er byrjaður að vera reiður út í Messi og það er glatað því að svona leikmaður mun aldrei fæðast aftur.“

Messi hefur komið við sögu í tíu leikjum hjá frönsku risunum og skorað í þeim fjögur mörk. Fyrir marga leikmenn þætti það ágætis tölfræði, en þegar þú ert einn besti leikmaður sögunnar og spilar með franska ofurliðinu PSG hefðu flestir búist við meira af litla Argentínumanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×