Erlent

Ástralskir lögreglumenn skerast í leikinn á Salómonseyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur ganga um götu Kínahverfisins í Honiara, höfuðborg Salómonseyja í dag. Óeirðir, íkveikjur og gripdeildir hafa átt sér stað í mótmælum undanfarinna daga.
Mótmælendur ganga um götu Kínahverfisins í Honiara, höfuðborg Salómonseyja í dag. Óeirðir, íkveikjur og gripdeildir hafa átt sér stað í mótmælum undanfarinna daga. AP/Piringi Charley

Útgöngubanni hefur verið komið á yfir nótt á Salómonseyjum í Kyrrahafi þar sem óeirðir hafa geisað undanfarna þrjá daga. Ástralskir lögreglumenn sem voru sendir til að aðstoða stjórnvöld á eyjunum hafa tekið sér stöðu á lykilstöðum í höfuðborginni Honiara.

Mótmælendur hafa gerst sekir um íkveikju, óeirðir og gripdeildir og hafa öryggissveitir meðal annars beitt táragasi á þá, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Lögreglan lýsti yfir útgöngubanni sem hefst klukkan 19:00 að staðartíma og stendur yfir nótt.

Manasseh Sogavare, forsætisráðherra Salómonseyja, sakar ónefnd erlend ríki um að kynda undir óeirðunum. Hann bað áströlsk stjórnvöld um aðstoð við að ná tökum á ástandinu.

Þorri mótmælendanna er sagður koma frá Malaita-héraði þar sem flestir eyjaskeggjar búa. Þeir telja sig vanrækta af ríkisstjórninni sem situr í Guadalcanal-héraði. Þá eru þeir enn ósáttir við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slíta stjórnmálasambandi við Taívan og taka upp nánara samband við Kína árið 2019.

„Þetta eru sömu löndin sem hafa núna áhrif á Malaita og þau sem vilja ekki samband við Alþýðulýðveldið Kína,“ sagði Sogavare ástralska ríkisútvarpinu.

Ástralir sendu hundrað lögreglumenn til Salómonseyja og nágrannaríki Papúa Nýja-Gínea 35 til viðbótar í dag. Ástralskir lögreglumenn voru við friðargæslustörf á Salómonseyjum í áratug frá 2003.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.