Erlent

James Webb fær heil­brigðis­vott­orð eftir upp­á­komu sem seinkaði geims­koti

Kjartan Kjartansson skrifar
Spegill JWST er sex og hálfur metri að þvermáli, mun stærri en Hubble-geimsjónaukans.
Spegill JWST er sex og hálfur metri að þvermáli, mun stærri en Hubble-geimsjónaukans. NASA/MSFC/David Higginbotham

Verkfræðingar hafa nú lokið prófunum á James Webb-geimsjónaukanum og staðfest að allt sé til reiðu að skjóta honum út í geim í næsta mánuði. Ákveðið var að fresta geimskotinu um nokkra daga eftir uppákomu við undirbúning á dögunum.

Hosuklemma sem festir geimsjónaukann við sérstakt millistykki sem tengir hann við efra þrep Arianne 5-eldflaugarinnar sem á að skjóta honum út í geim losnaði óvænt þegar tæknimenn bjuggu sig undir að festa sjónaukann við eldflaugina nýlega.

Í kjölfarið var ákveðið að gera frekari prófanir til að meta hvort að uppákoman hafi skemmt sjónaukann eða hluta hans. Því var ákveðið að fresta geimskotinu um nokkra. Til stóð að skjóta honum á loft í fyrsta lagi 18. desember en nú er áætlað að það verði að morgni 22. desembers.

Prófunum var lokið í gær og komst nefnd á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA að sjónaukinn hefði ekki skaddast. Lagði hún blessun sína yfir að byrjað yrði að fylla eldsneyti á sjónaukann. Hafist verður handa við það í dag en áfyllingin tekur um tíu daga, að því er segir í tilkynningu á vef NASA.

James Webb er stærsti geimsjónauki sögunnar en geimskoti hans hefur ítrekað verið frestað undanfarin ár. Ólíkt Hubble-geimsjónaukanum sem hann leysir af hólmi er JWST næmur fyrir innrauðu ljósi en ekki sýnilegu.

Sjónaukinn er samstarfsverkefni NASA, evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) og kanadísku geimstofnunarinnar. Honum verður skotið á loft frá evrópsku geimmiðstöðinni í Kourou í Frönsku Gvæjana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×