Innlent

Neytti fíkni­efna í verslun og heimtaði peninga af starfs­manni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verkefni lögreglunnar voru nokkuð mörg í nótt, af dagbók hennar að dæma.
Verkefni lögreglunnar voru nokkuð mörg í nótt, af dagbók hennar að dæma. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi í aðstöðu starfsmanna verslunar í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan sex í gærkvöldi, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Þar er maðurinn sagður hafa verið að neyta fíkniefna, auk þess sem hann hafi heimtað peninga af starfsmanni verslunarinnar. Lögregla handtók manninn og færði hann á lögreglustöð. Þar var tekin af honum skýrsla vegna vörslu fíkniefna.

Upp úr klukkan sex var ekið á gangandi konu í Hafnarfirði. Hlaut hún skurð á höfði en missti ekki meðvitund. Hún var flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku.

Um hálf ellefu í gærkvöldi barst lögreglu þá tilkynning um umferðarslys í Hlíðahverfi. Maður datt af rafmagnshlaupahjóli og er talinn hafa rotast. Samkvæmt dagbók lögreglu blæddi úr höfði mannsins en hann þó með meðvitund og öndun hans eðlileg þegar lögregla kom á vettvang. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku til aðhlynningar.

Um hálf þrjú handtók lögreglan tvo unga menn sem sagðir voru í annarlegu ástandi. Voru þeir grunaður um eignaspjöll og fleira, og voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Á fjórða tímanum var síðan ungur maður handtekinn í Garðabæ, grunaður um líkamsárás, og færður í fangageymslur lögreglu. Í dagbók lögreglu segir ekkert um hvernig árásin kom til eða hvernig hún var framin. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um alvarleika þeirra áverka sem fórnarlamb árásarinnar hlaut.

Skömmu síðar handtók lögregla ökumann og farþega bifreiðar í Árbænum. Báðir voru kærðir fyrir vörslu og sölu fíkniefna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×