Fótbolti

Andrea Mist riftir samningi sínum í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Mist í leik með Þór/KA sumarið 2018.
Andrea Mist í leik með Þór/KA sumarið 2018. Vísir/Vilhelm

Andrea Mist Pálsdóttir hefur fengið sig lausa frá sænska knattspyrnufélaginu Växjö en liðið féll úr efstu deild þar í landi á dögunum. Hún segir sænsku B-deildina einfaldlega ekki nægilega sterka.

Þetta kemur fram í viðtali Andreu Mist við Akureyri.net nýverið en hún er uppalin á Akureyri. Lék hún með Þór/KA í Pepsi Max deild kvenna frá 2016 til 2019. 

„Mér þykir eiginlega ömurlegt að þurfa að rifta samningnum því mér finnst mjög gott að vera hérna. Næstefsta deild í Svíþjóð er bara ekki nógu góð. Það gerði engin ráð fyrir því að Växjö myndi falla. Liðið varð í 5. sæti sumarið áður og hér eru margir góðir leikmenn. Okkur gekk bara rosalega illa að skora. “ sagði Andrea Mist í viðtalinu við Akureyri.net.

Hin 23 ára gamla Andrea Mist segist ekki viss hvar hún mun spila á næstu leiktíð. Ásamt því að leika með Þór/KA og Växjö hefur hún einnig leikið á Ítalíu og þá samdi hún við Breiðablik skömmu áður en hún hélt til Svíþjóðar.

„Ég get vel hugsað mér að spila áfram í Svíþjóð. Umboðsmaðurinn minn er að skoða eitthvað en svo getur vel verið að ég komi heim til Íslands og spili þar. Það kemur bara í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×