Fótbolti

„Virkilega pirrandi og maður er fúll og svekktur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Ásta Eir Árnadóttir með boltann í leiknum í kvöld. vísir/vilhelm

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, var að mörgu leyti sátt með frammistöðuna gegn Kharkiv í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hún var hins vegar sár og svekkt með úrslitin. Blikar töpuðu 0-2 og eru áfram á botni B-riðils.

„Þetta er virkilega pirrandi og maður er fúll og svekktur. Mér fannst við spila vel á köflum og eiga meira skilið út úr leiknum. En það skiptir ekki máli þegar maður tapar. Það er ekkert hægt að gera í því núna. Maður er enn frekar pirraður,“ sagði Ásta á blaðamannafundi eftir leikinn á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrri leikur Breiðabliks og Kharkiv endaði með markalausu jafntefli. Ásta var sáttari með frammistöðuna í leiknum í kvöld en leiknum í Úkraínu fyrir viku.

„Við vorum alveg sáttar við stigið í síðasta leik því við vorum ekki nógu góðar í þeim leik. Ég er mjög svekkt að við höfum ekki fengið neitt út úr þessum leik og bara eitt stig út úr þessum tveimur leikjum. Þetta voru andstæðingarnir sem við áttum mesta möguleika gegn,“ sagði Ásta.

„Við verðum að taka það jákvæða úr þessum leik. Það var mjög góð bæting á milli leikja og þetta er besti leikur okkar í riðlakeppninni hvað varðar að halda boltanum og allt svoleiðis. Við gerðum það sem við æfðum síðustu vikuna. Ég er ánægð með hvernig við komum inn í þennan leik miðað við síðasta leik. En það er pirrandi að það gaf ekki neitt. Þótt frammistaðan hafi verið góð erum við bara enn með eitt stig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×