Erlent

Stefnir sjónvarpsstöð sem bendlaði hann við mannránið

Kjartan Kjartansson skrifar
Lýst var eftir Cleo Smith en hún fannst heil á húfi átján dögum eftir að hún hvarf úr tjaldi fjölskyldu sinnar á tjaldsvæði í október.
Lýst var eftir Cleo Smith en hún fannst heil á húfi átján dögum eftir að hún hvarf úr tjaldi fjölskyldu sinnar á tjaldsvæði í október. Vísir/EPA

Ástralskur karlmaður hefur stefnt einni stærstu sjónvarpsfréttastöð landsins eftir að hún sagði hann ranglega vera manninn sem rændi Cleo Smith, fjögurra ára gamalli stúlku sem hvarf úr tjaldi foreldra sinna í síðasta mánuði en fannst síðar heil á húfi.

Terrence Kelly, karlmaður á fertugsaldri, var handtekinn vegna ránsins á Cleo Smith en stúlkan fannst innilæst á heimili hans í bænum Carnarvon í Vestur-Ástralíu 3. nóvember. Hennar hafði þá verið saknað í átján daga.

Rétt eftir að maðurinn var handtekinn birti sjónvarpsstöðin Seven mynd af öðrum manni, Terrence Flowers, og sagði hann ranglega þann sem lögregla hefði tekið fastan. Bæði Kelly og Flowers eru ástralskir frumbyggjar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Nú hefur Flowers stefnt sjónvarpsstöðinni og sakar hana um ærumeiðingar með því að bendla hann við mannránið. 

Stöðin tók fjórar myndir af Facebook-síðu Flowers þar sem hann notar Kelly, upphaflegt ættarnafn móður sinnar, án leyfis hans. Myndirnar birti stöðin svo ítrekað í útsendingu með borða sem á stóð: „Á mynd: maðurinn sem er sakaður um að ræna Cleo Smith“. Það var í fyrsta skipti sem fjölmiðlar birtu mynd af þeim sem átti að vera grunaður í málinu sem vakti gríðarlega athygli í Ástralíu og víða um heim.

Forsvarsmenn Seven báðu Flowers afsökunar og leiðréttu mistökin á vefsíðu sinni og í útsendingum daginn eftir.

Lögmaður Flowers segir að stöðin hafi valdið honum og fjölskyldu hans verulegum þjáningum. Hann hafi meðal annars endað á sjúkrahúsi með alvarlegt kvíðakast. 


Tengdar fréttir

Kanna hvort mannræninginn hafi verið einn að verki

Ástralska lögreglan rannsakar nú hvort að karlmaður á fertugsaldri hafi verið einn að verki þegar hann rændi fjögurra ára gamalli stúlku úr tjaldi foreldra hanna í Vestur-Ástralíu í síðasta mánuði. Stúlkan fannst heil á húfi eftir hátt í þriggja vikna umfangsmikla leit.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×