Fótbolti

Ari hættur í landsliðinu: „Kominn tími á að gefa framtíðinni pláss“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Freyr Skúlason lék 83 landsleiki á árunum 2009-21.
Ari Freyr Skúlason lék 83 landsleiki á árunum 2009-21. vísir/vilhelm

Ari Freyr Skúlason hefur lagt landsliðsskóna á hilluna. Hann greindi frá þessu á Twitter fyrir skömmu.

Ari lék sinn 83. og síðasta landsleik þegar Ísland gerði markalaust jafntefli við Rúmeníu í undankeppni HM 2022 á fimmtudaginn. Hann þurfti að fara af velli eftir tíu mínútur vegna meiðsla.

Eftir tapið fyrir Norður-Makedóníu á sunnudaginn greindi Birkir Már Sævarsson frá því að hann hefði leikið sinn síðasta landsleik. Fyrrverandi samherji hans hjá Val, Ari, hefur nú tekið sömu ákvörðun.

„Eftir 10 ár af ómetanlegum minningum er kominn tími á að gefa framtíðinni pláss. Er stoltur af að hafa verið hluti af þessum magnaða tíma í íslenskri fótboltasögu. Takk fyrir mig!“ skrifaði Ari á Twitter í dag.

Ari lék sinn fyrsta landsleik gegn Íran haustið 2009. Hann var í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu á blómaskeiði þess. Hann lék alla leikina á EM 2016 frá upphafi til enda og kom við sögu í tveimur af þremur leikjum Íslands á HM 2018.

Ari, sem er 34 ára, leikur með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.