Eng­land skoraði tíu og tryggði sæti sitt á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane skoraði fjögur í kvöld.
Harry Kane skoraði fjögur í kvöld. Danilo Di Giovanni/Getty Images

San Marínó er lélegasta landslið heims samkvæmt FIFA-listanum. Það sannaðist í kvöld er England vann 10-0 sigur á Ólympíuleikvanginum í San Marínó og tryggði sér sæti á HM í Katar árið 2022.

Harry Kane skoraði fjögur mörk og er nú aðeins fimm mörkum frá því að jafna Wayne Rooney sem markahæsti landsliðsmaður í sögu Englands.

Harry Maguire opnaði markareikning Englands strax á sjöttu mínútu. Eftir stundarfjórðung varð Filippo Fabbri fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Harry Kane skoraði þriðja mark Englands úr vítaspyrnu á 27. mínútu.

Kane bætti við fjórða marki Englands á 32. mínútu og fullkomnaði þrennu sína á 39. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Kane skoraði sitt fjórða og Englands sjötta mark skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Emile Smith-Rowe skoraði í sínum fyrsta A-landsleik á 58. mínútu og tíu mínútum síðar fékk Dante Carlos Rossi sitt annað gula spjald í liði San Marínó. Það nýttu Englendingar sér heldur betur.

Tyrone Mings skoraði mínútu síðar og á 71. mínútu kom Jude Bellingham knettinum í netið en markið var dæmt af eftir að hafa verið skorað af myndbandsdómara leiksins. 

Á 78. mínútu skoraði Tammy Abraham níunda mark Englands og mínútu síðar hafði Bukayo Saka komið knettinum í netið.

Staðan orðin 10-0 Englandi í vil og reyndust það lokatölur.

England vinnur þar með I-riðil undankeppninnar með 26 stig að loknum 10 leikjum. Pólland tapaði óvænt 1-2 fyrir Ungverjalandi í kvöld og endar í 2. sæti með 20 stig. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira