Innlent

Á­hyggju­efni að fleiri gagn­kyn­hneigðir greinist með sára­sótt

Árni Sæberg skrifar
Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Það sem af er ári hafa 41 greinst með sárasótt hér á landi, þar af níu gagnkynhneigðir einstaklingar. Samkvæmt Farsóttarfréttum er það áhyggjuefni.

Í nýútkomnum Farsóttafréttum, fréttabréfi sóttvarnalæknis, er ítarleg umfjöllun um sárasótt á Íslandi árið 2021. Töluverð aukning hefur verið á tilfellum sárasóttar á árinu sem og undanfarin ár.

Á árunum 1970 til 2009 greindust að jafnaði innan við tíu einstaklingar árlega með sárasótt á Íslandi. Eftir 2009 fjölgaði sárasóttartilfellum aftur hérlendis og hafa að meðaltali 24 einstaklingar greinst árlega síðustu tíu árin.

Í fyrra greindust 31 með sárasótt en 41 í ár. 

Langflestir sem greinast með sárasótt eru karlmenn. Í ár eru karlmenn 93 prósent þeirra sem hafa greinst. Þá segir að í fyrra hafi karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum verið 77 prósent hinna smituðu.

Nú séu hins vegar merki um að sjúkdómurinn sé í meiri dreifingu meðal gagnkynhneigðra. Það sem af er þessu ári hafi níu eintaklingar sem segjast vera gagnkynhneigðir greinst smitaðir.

Það sé áhyggjuefni þar sem sárasóttarsýking móður á meðgöngu geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir barnið.

Sóttvarnalæknir hvetur fólk til þess að leita strax til læknis ef grunur er uppi um sárasóttarsmit. „Sárasótt er enn heilbrigðisvandamál sem taka þarf alvarlega,“ segir í lok greinar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×