Fótbolti

Undankeppni HM: Tyrkir laumuðu sér framúr Norðmönnum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Martin Odegaard og félagar í norska landsliðinu misstigu gegn Lettum
Martin Odegaard og félagar í norska landsliðinu misstigu gegn Lettum EPA-EFE/Terje Pedersen

Norðmenn, sem voru án Erling Braut Haaland í dag, mistókst að vinna sigur á Lettlandi í undanleppni Heimsmeistaramótsins sem fram fer í Katar á næsta ári. Tyrkir nýttu tækifærið og skutust upp fyrir þá í G-riðli.

Norðmenn þóttu sigurstranglegri fyrir leikinn gegn Lettlandi sem fram fór á Ullevaal leikvanginum í Osló. Noregur byrjaði betur í leiknum og átti nokkur færi án þess að skora og átti færanýting liðsins eftir að koma í bakið á þeim því hvorugu liðinu tókst að skora í leiknum sem laik með jafntefli, 0-0.

Það er með hreinum ólíkindum að Norðmönnum, sem áttu 26 skot að marki í dag, hafi ekki tekist að vinna leikinn en þeim tókst að koma boltanum í netið á 80. mínútu en mark Mohamed Elyounoussi var dæmt af. Noregur hefur eftir leikinn 18 stig í riðlinum.

Tyrkir unnu mjög auðveldan sigur á slöku liði Gíbraltar, 6-0, og komust þar með upp fyrir Noreg á markatölu en Tyrkir hafa einnig 18 stig í riðlinum. Það voru þeir Kerem Akturkoglu, Ibrahim Devrisoglu, Merih Demiral, Serdar Dursun og Mert Muldur sem skoruðu mörkin fyrir Tyrki.

Finnland komst snemma í 0-1 á móti Bosníu á útivelli í D-riðli keppnninnar. Það var Marcus Forss sem skoraði markið. Finnland missti svo mann útaf með rautt spjald á 37. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Robin Lod kom svo Finnum í 0-2 áður en Luka Menalo minnkaði muninn. Daniel O'Shaughnessy kláraði svo leikinn fyrir Finna á 73. mínútu. Finnland er í öðru sæti í D-riðli með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×