Erlent

Sýr­lendingur fannst látinn á landa­mærum Pól­lands og Hvíta-Rúss­lands

Árni Sæberg skrifar
Þúsundir flóttamanna hafa safnast saman á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands.
Þúsundir flóttamanna hafa safnast saman á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. EPA-EFE/STRINGER

Lík ungs sýrlensks karlmanns fannst í dag í skóglendi á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Ófremdarástand ríkir á landamærunum þar sem gríðarlegur fjöldi flóttamanna hefur verið sendur þangað af hvít-rússneskum stjórnvöldum.

Lögregluyfirvöld segja að líkið hafi fundist við þorpið Wolka Terechowska og að dánarorsök liggi ekki enn fyrir. Þetta segir í frétt The Guardian um málið.

Pólverjar hafa varað við því að til vopnaðra átaka gæti komið á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands, þar sem fjöldi flóttamanna freistar þess að komast yfir landamærin. 

Minnst níu hafa þegar látist í flóttamannabúðum á landamærunum.

Pólland og Evrópusambandið saka Hvítrússa um að senda hópa flóttamanna skipulega að landamærunum en Alexander Lukashenko, forseti landsins, hefur verið harðlega gagnrýndur af ESB fyrir stjórnarhætti sína heima fyrir.

Svo virðist sem hann freisti þess nú að beita flóttafólki fyrir sig til að skapa óreiðu í ESB-ríkjunum.

Starfandi innanríkisráðherra Þjóðverja segir í samtali við dagblaðið Bild að Evrópusambandslöndin verði að koma Pólverjum til hjálpar, vandamálið verði ekki leyst af þeim einum eða Þjóðverjum.

Nauðsynlegt sé að tryggja landamæri Póllands og hvatti hann framkvæmdastjórn ESB til að bregðast við hið snarasta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×