Innlent

Fyrsta sem Drífa gerði var að horfa til Heklu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður og bóndi á Keldum.
Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður og bóndi á Keldum. Arnar Halldórsson

„Ég náttúrlega stökk út í glugga til að kíkja á Heklu, vinkonu mína. Ég hef hana fyrir augunum og beint úr eldhúsglugganum,“ sagði Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður og bóndi á Keldum á Rangárvöllum.

Í fréttum Stöðvar 2 lýsti hún viðbrögðum sínum þegar jarðskjálfti af stærðinni 5,2 með upptök í Vatnafjöllum, austan Heklu, reið yfir Suðurland laust fyrir klukkan hálf tvö í dag.

Þeir sveitabæir sem næstir eru upptökum skjálftans eru sennilega Heklubæirnir Selsund og Næfurholt sem og Keldur.

Keldur á Rangárvöllum í dag.Arnar Halldórsson

„Upptökin á þessum skjálfta eru kannski bara fimmtán kílómetra hérna frá bænum. Og ég er efsti bær,“ sagði Drífa.

„Ég sat bara inni í stofu og var að prjóna og allt í einu var bara eins og stórt högg undir sófann og allt hristist og skalf.“

-En hrundi ekkert úr hillum?

Hvolsvöllur er það þéttbýli sem næst er upptökum jarðskjálftans. Myndin var tekin síðdegis.Arnar Halldórsson

„Nei, nei. Það gerði það nú ekki. En það skalf mikið.

En þetta er ekki nærri því eins og var árið 2000 þegar skjálftinn var yfir sex og ég var niðri í Hellu í nýja íþróttahúsinu. Þetta var ekkert í líkingu við það. Þetta var miklu, miklu minna,“ svaraði Drífa.

Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá Hvolsvelli:


Tengdar fréttir

Skjálfti af stærð 5,2 fannst vel víða á Suðvesturhorninu

Jarðskjálfti af stærðinni 5,2 reið yfir klukkan 13:21 og fannst hann vel á nær öllu suðvesturhorni landsins. Fyrstu mælingar Veðurstofu sýna að hann hafi verið af stærðinni 4,8 en sú tala hefur nú verið uppfærð. Skjálftinn átti upptök sín um 1,9 km Suðvestur af Vatnafjöllum. 

Ekki grunur um að gos sé í vændum en Hekla undir smá­sjá

Ekki er talin hætta á að Hekla muni gjósa eftir að jarðskjálfti af stærðinni 5,2 reið yfir Suðurlandið í dag. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa lokið fundi sínum um skjálftann og telja hann ekki tengjast Heklu beint. 

„Þetta er skjálftabeltið sem er þarna að verki“

Dr. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir að það fari ekki á milli mála að jarðskjálftinn sem reið yfir Suðurlandið í dag hafi verið Suðurlandsskjálfti, en ekki tengdur Heklu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×