Fótbolti

PSG valtaði yfir Real Madrid | Juventus bjargaði stigi gegn Wolfsburg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
PSG vann stórsigur gegn Real Madrid í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
PSG vann stórsigur gegn Real Madrid í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Johannes Simon - UEFA/UEFA via Getty Images

Franska stórveldið Paris Saint-Germain átti ekki í miklum vandræðum er liðið tók á móti Real Madrid í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Liðið vann 4-0 stórsigur og er nú með þriggja stiga forskot á toppi riðilsins, en liðin leika í sama riðli og Breiðablik.

Marie-Antoinette Katoto kom PSG yfir strax á 13. mínútu áður en Sara Daebritz tvöfaldaði forystu Parísarliðsins stuttu fyrir hálfleik. 

Marie-Antoinette Katoto var svo aftur á ferðinni á 54. mínútu þegar hún skoraði annað mark sitt, og þriðja mark PSG.

Staðan var svo orðin 4-0 rúmum tíu mínútum síðar þegar Rocio varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Þetta reyndist lokamark leiksins og Parísarliðið fagnaði því öruggum 4-0 sigri. 

Liðið er nú eitt á toppi B-riðils með níu stig eftir þrjá leiki, þrem stigum meira en Real Madrid sem situr í öðru sæti. Breiðablik og Kharkiv reka svo lestina með sitthvort stigið, en liðin gerðu markalaust jafntefli fyrr í kvöld.

Á sama tíma og leikur PSG og Real Madrid fór fram mættust Juventus og Wolfsburg í A-riðli. Ljóst var að um mikilvægan leik var að ræða, en með sigri gátu bæði lið haldið í við Chelsea sem sitja á toppi riðilsins.

Cristiana Girelli kom Juventus yfir á 22. mínútu áður en Lena Lattwein jafnaði metin fyrir gestina þremur mínútum síðar.

Staðan var því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja, en Tabea Wassmuth kom Wolfsburg yfir á 65. mínútu. 

Það stefndi allt í 2-1 sigur Wolfsburg, en á 90. mínútu fékk Felicitas Rauch að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Valentina Cernoia tók aukaspyrnuna fyrir Juventus, og eftir mikinn darraðardans inni á teig gestanna barst boltinn til Girelli sem var ein á auðum sjó og skoraði annað mar sitt og tryggði Juventus dýrmætt stig.

Juventus situr nú í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig eftir þrjá leiki, einu stigi á eftir Wolfsburg sem situr í öðru sæti. Chelsea er í efsta sæti riðilsins með sjö stig, en liðið vann virkilega sannfærandi 7-0 sigur gegn botnliði Servette fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×