Enski boltinn

Skilja ekkert í ákvörðun Solskjærs að gefa vikufrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er undir mikilli pressu.
Ole Gunnar Solskjær er undir mikilli pressu. getty/Clive Brunskill

Leikmenn og starfsfólk Manchester United var undrandi á þeirri ákvörðun Ole Gunnars Solskjær, knattspyrnustjóra liðsins, að gefa vikufrí.

Fjölmargir leikmenn United eru með sínum landsliðum og verða næstu daga. Solskjær ákvað að gefa hinum leikmönnum sem eru ekki að spila með sínum landsliðum frí næstu vikuna. Starfslið United fékk einnig vikufrí og sjálfur nýtti Solskjær tækifærið og skrapp til heimaborgarinnar, Kristiansund í Noregi.

Daily Mail greinir frá því að þessi ákvörðun Solskjærs hafi vakið furðu bæði hjá leikmönnum og starfsliði United, sérstaklega í ljósi stöðu liðsins. United tapaði fyrir Manchester City, 0-2, á laugardaginn og hefur tapað sex af síðustu tólf leikjum sínum í öllum keppnum.

Solskjær er undir mikilli pressu en forráðamenn United hafa þó ekki í hyggju að skipta um stjóra hjá liðinu.

Næsti leikur United er gegn Watford á Vicarage Road laugardaginn 20. nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×