Innlent

Nýtt lyf hafi mikla þýðingu í bar­áttunni við far­aldurinn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor í smitsjúkdómum við Háskóla Íslands, segir lyfið hafa þýðingu í baráttunni gegn Covid-19
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor í smitsjúkdómum við Háskóla Íslands, segir lyfið hafa þýðingu í baráttunni gegn Covid-19 Vísir/Sigurjón

Nýtt lyf gegn Covid-19 hefur talsverða þýðingu í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum að mati prófessors í smitsjúkdómalækningum. Margir hafa augastað á lyfinu en það jákvæða er að framleiðsla þess er auðveldari en framleiðsla bóluefna.

Bretar hafa heimilað notkun á nýju veirulyfi, sem heitir molnupiravir, gegn Covid-19. Lyfið er gefið í töfluformi. Rannsóknir sýna að notkun lyfsins á fyrstu dögum dregur úr líkum á innlögn á sjúkrahús og dauðsföllum.

„Þýðingin gæti verið talsverð vegna þess að þetta er lyf sem að hægt er að taka um munn og kallar þess vegna ekki á mikla vinnu af hálfu sjúkrahúsa eða bráðamóttaka ef hægt er að ávísa lyfinu tiltölulega snemma í ferlinu,“ segir Magnús Gottfreðsson yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor í smitsjúkdómalækningum.

„Það virðist þolast vel og rannsóknir sem að gerðar hafa verið benda til þess að hægt sé að draga úr innlögnum og dauðsföllum með því að beita þessari íhlutun snemma.“

Önnur ríki vinna nú að því að fá lyfið skráð til að hægt að heimila notkun á því.

„Þetta er lyf sem að er alveg nýtt og hefur ekki verið notað áður og hefur ekki verið skráð fyrr en þá núna í Bretlandi og Bandaríkjamenn eru að vinna að undirbúningi skráningar þar. Sömuleiðis í Evrópu þar er verið að fara yfir þessi gögn,“

Magnús segir erfitt að segja til um hvenær hægt verður að byrja að nota lyfið á Íslandi. 

„Ég veit það að það er áhugi alls staðar í Evrópu að hraða þessu ferli og umsóknin um skráningu er komin til Evrópsku lyfjastofnunarinnar og ég geri ráð fyrir að menn muni leggja hart að sér að vanda þar til verka og flýta þeirri yfirferð.“

Mikil eftirspurn er eftir lyfinu en bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa tryggt sér nokkuð magn af því. 

„Þetta er hins vegar ekki flókin efnasmíð og ætti í sjálfu sér ekki að vera jafn tímafrekt og í tilviki bóluefnanna þannig að já það er vafalítið einhver bið á að hægt sé að uppfylla allar þarfir heimsins en það ætti að vera mun auðveldara viðfangs heldur en í tilviki bóluefnanna vegna þess að bóluefnagerðin er flóknari. “


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.