Sport

Taldi sig eiga rétt á bólusetningarvottorði eftir meðferð hjá hómópata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Rodgers er frábær leikmaður og var kosinn mikilvægasti leikmaður NFL deildarinnar á síðustu leiktíð.
Aaron Rodgers er frábær leikmaður og var kosinn mikilvægasti leikmaður NFL deildarinnar á síðustu leiktíð. AP/Rick Scuteri

Það er talsvert fjaðrafok í kringum fréttirnar af kórónusmiti NFL-stjörnunnar Aaron Rodgers en hann missir af næsta leik liðsins um helgina.

Aaron Rodgers var kosinn besti leikmaður NFL-deildarinnar á síðustu leiktíð og undir hans forystu hefur Green Bay Packers liðið nú unnið sjö leiki í röð. Þarna er því á ferðinni ein stærsta stjarna deildarinnar.

Umræðan um bólusetningarvottorð leikmannsins hefur stolið fyrirsögnunum í gær og dag.

Rodgers taldi sig sjálfan sig vera með ónæmi fyrir veirunni og var að berjast fyrir því að fá slíkan stimpil frá NFL-deildinni.

Rodgers fó þó ekki í bólusetningu heldur fór hann í staðinn í það að styrkja ónæmiskerfið sitt í gegnum meðferð hjá hómópata. Hann hélt því síðan fram að með því ætti hann skilið að fá sömu réttindi og þeir sem höfðu fengið bólusetningu.

Rodgers fór í umrædda meðferð fyrir tímabilið en eftir smitið hans í gær er ljóst að það gekk ekki alveg upp hjá honum.

Viðræður milli NFL og Rodgers um þetta vottorð höfðu staðið yfir en á endanum fékk hann skiljanlega ekki bólusetningarvottorðið.

Green Bay Packers segist hafa farið eftir öllum reglum sem gilda um óbólusetta leikmenn en í þau skipti sem Rodgers hefur sést opinberlega lítur ekki út fyrir að hann hafi haft miklar áhyggjur af smitvörnum.

Rodgers á að hafa borið grímu þegar hann var innanhúss hjá Green Bay Packers en hann mætti grímulaus á alla fjölmiðlafundi. Aðrir leikmenn liðsins veittu bara viðtöl á fjarfundum.

NFL deildin gaf það út að hún ætli að skoða betur verklag Packers mann í kringum aðalleikstjórnanda sinn.

Rodgers missir af næsta leik Green Bay Packers liðsins og af því að hann var óbólusettur þarf hann að vera í einangrun í tíu daga. Hann mun ekki geta spilað aftur fyrr en í fyrsta lagi 13. nóvember næstkomandi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×