Fótbolti

Nítján ára leikmaður Juventus íhugar að hætta vegna þunglyndis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Ihattaren þegar hann skrifaði undir samning við Juventus. Óvíst er hvort hann spili nokkru sinni fyrir félagið.
Mohamed Ihattaren þegar hann skrifaði undir samning við Juventus. Óvíst er hvort hann spili nokkru sinni fyrir félagið. getty/Juventus FC

Hollenska ungstirnið Mohamed Ihattaren íhugar að leggja að leggja skóna á hilluna vegna þunglyndis. Hann er aðeins nítján ára.

Eftir að hafa leikið 74 leiki og skorað tíu mörk fyrir PSV Eindhoven samdi Ihattaren við Juventus í sumar og skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið. Hann var strax lánaður til Sampdoria en hefur ekki enn spilað fyrir liðið. 

Raunar hefur Ihattaren ekki sést í Genúa síðan 12. október en hann er í Hollandi vegna fjölskyldumála. Faðir hans lést fyrir tveimur árum og Ihattaren hefur ekki enn jafnað sig á því. Hann glímir við mikið þunglyndi og ku velta því alvarlega fyrir sér hvort hann eigi hreinlega að hætta í fótbolta.

Hollenskum fjölmiðlum hefur gengið illa að ná í Ihattaren undanfarnar vikur og Juventus og Sampdoria hafa ekkert gefið upp um stöðu mála hjá honum og virðast hreinlega vita lítið um hann. Þá hefur Ihattaren ekki sést í Utrecht, heimaborg sinni, síðan hann sneri aftur til Hollands frá Ítalíu.

Ihattaren varð Evrópumeistari með U-17 ára landsliði Hollands 2018. Hann var valinn í A-landsliðið haustið 2020. Ihattaren hefði einnig getað spilað fyrir landslið Marokkó, heimaland foreldra sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×