Innlent

Efling slaufar fræðslufundi um betri samskipti

Jakob Bjarnar skrifar
Baráttufundur Eflingar í Iðnó vegna verkafalla á síðasta ári. Sólveig Anna stígur af sviðinu við dynjandi lófatak félaga sinna.
Baráttufundur Eflingar í Iðnó vegna verkafalla á síðasta ári. Sólveig Anna stígur af sviðinu við dynjandi lófatak félaga sinna. vísir/vilhelm

Verkalýðsfélagið Efling hafði boðið til sérstaks fræðslufundar fyrir fyrirtæki undir yfirskriftinni „Betri vinnustaður og betri samskipti“ en honum virðist hafa verið frestað um óákveðinn tíma.

Fræðslufundurinn átti að fara fram á fimmtudaginn næstkomandi að Guðrúnartúni 1, 4. hæð en þar er Fræðslusetur Eflingar til húsa. Þar áttu að vera fyrirlestur og umræður. En eftir tíðindi gærkvöldsins, þegar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði af sér auk Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra, hafa þeir sem nú ráða för innan verkalýðsfélagsins séð í hendi sér að fyrir slíkum fundi, undir slíkri yfirskrift, væri líklega ekki stemmning.

Eins og Vísir hefur greint frá gengur illa að fá upplýsingar frá Eflingu og þeim Sólveigu Önnu og Viðari um hvað gekk á og hvað muni taka við.

Ónefndur starfsmaður Eflingar hefur haft hraðar hendur og er nú unnið að því að afmá öll ummerki um fundinn á netinu. Til að mynda ef slegið er inn á leitarvélina Google „Betri vinnustaðamenning og betri samskipti – Efling stéttarfélag“ þá kemur einfaldlega upp melding sem segir: „Síðan fannst ekki.“


Tengdar fréttir

Viðar fylgir Sólveigu og segir upp í dag

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hyggst segja upp störfum í dag. Fylgir hann þar með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem tilkynnti í gær að hún hefði sagt af sér sem formaður stéttarfélagsins.

Sól­veig Anna segir af sér vegna van­trausts­yfir­lýsingar

Sólveig Anna Jónsdóttir hefur tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn sína sem formaður félagsins. Afsögnin kemur í kjölfar vantraustsyfirlýsingar sem starfsfólk Eflingar sendi Sólveigu Önnu, félaginu og fjölmiðlum á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×