Erlent

For­sætis­ráð­herra Norður-Makedóníu segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Zoran Zaev ávarpaði flokksmenn sína í gærkvöldi þar sem hann tilkynnti um afsögn sína.
Zoran Zaev ávarpaði flokksmenn sína í gærkvöldi þar sem hann tilkynnti um afsögn sína. AP

Forsætisráðherra Norður-Makedóníu, Zoran Zaev, hefur sagt af sér embætti. Afsögnin kemur í kjölfar bágrar niðurstöðu stjórnarflokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Zaev greindi frá afsögninni í gærkvöldi og sagðist hann vilja axla ábyrgð á lélegri kosningu Jafnaðarmannaflokks hans í sveitarstjórnarkosningunum. „Ég axla ábyrgð á stöðunni. Ég segi af mér sem forsætisráðherra og flokksformaður. Ég hef skilað frelsi og lýðræði og lýðræði hefur í för með sér að maður axlar ábyrgð,“ sagði Zaev.

Zaev hefur talað fyrir nánari tengslum Norður-Makedóníu og Evrópusambandsins. Þannig átti hann mikinn þátt í leysa úr áralangri deilu Norður-Makedóníu og Grikkja um nafnið Makedónía þar sem niðurstaðan var sú að Makedónía tók formlega upp nafnið Norður-Makedónía.

Hann segist styðja það að annar maður úr ranni Jafnaðarmannaflokksins taki nú við forsætisráðherra, frekar en að þingkosningum verði flýtt.

Í höfuðborginni Skopje hlaut frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Danela Arsovska, 56 prósent atkvæða í kosningum til borgarstjóra, en frambjóðandi Jafnaðarmanna, Petre Sigelov, um 40 prósent.

Í frétt DW segir að svo virðist sem að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, miðhægriflokkurinn VMRO-DPMNE, hafi unnið sigra í áttatíu sveitarfélögum, en Jafnaðarmannaflokkurinn í innan við tuttugu. Til samanburðar vann Jafnaðarmannaflokkurinn sigra í 57 sveitarfélögum í kosningunum 2017.

Zaev gegndi fyrst embætti forsætisráðherra Norður-Makedóníu á árunum 2017 til ársbyrjunar 2020 og aftur frá ágúst 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×