Innlent

Einungis einn getur nú vitjað sjúk­lings á dag

Atli Ísleifsson skrifar
Grímuskylda gesta er án undantekninga og verða gestir að vera tólf ára eða eldri.
Grímuskylda gesta er án undantekninga og verða gestir að vera tólf ára eða eldri. Vísir/Vilhelm

Landspítalinn hefur ákveðið að herða heimsóknarreglur á spítalanum enn frekar vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Einungis einn getur nú vitjað sjúklings á dag og það á auglýstum heimsóknartímum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttarnefnd Landspítalans.

Þar eru gestir sjúklinga beðnir um að athuga að einungis einn á dag geti vitjað sjúklings á auglýstum heimsóknartímum. Grímuskylda gesta sé án undantekninga og að gestir þurfi að vera tólf ára eða eldri.

Þá er bent á að gestir komi ekki í heimsókn ef þeir séu í sóttkví, með einkenni eða með sýni í gangi.

Þá þurfi aðstandendur sem séu nýkomnir erlendis frá að fara eftir sérstökum reglum sem varði þá.

Smituðum í samfélaginu hefur fjölgað talsvert síðustu daga og hafa meðal annars sjúklingar á hjarta-, lungna og augnskurðdeild Landspítala, eða 12G, greinst með kórónuveiruna síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×