Innlent

Engin merki um skot­sár á dauðu hrossunum í Land­eyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Nákvæm skoðun leiddi í ljós að engin merki væru um skot eða skotsár á hræjunum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Nákvæm skoðun leiddi í ljós að engin merki væru um skot eða skotsár á hræjunum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Ekki voru nein merki um skot eða skotsár á tveimur dauðum hrossum sem fundust í beitarhaga í Landeyjum í gær.

Þetta er niðurstaða rannsóknar lögreglunnar á Suðurlandi en lögregla fór á vettvang ásamt dýralækni eftir að tilkynning barst frá eiganda hrossanna um að þau hafi mögulega verið skotin.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að hræin hafi verið skoðuð, hvort á sínum stað en rétt um kílómetri var á milli þeirra.

„Nákvæm skoðun leiddi í ljós að engin merki eru um skot eða skotsár á hræjunum og virðast hrossin hafa drepist af náttúrulegum ástæðum. Rannsókn málsins telst því lokið af hálfu lögreglu,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Fundust dauð í síðustu viku

Rætt var við hrossaeigandann á bænum Lindartúni í gær og taldi hann víst að hrossin hafi verið skotin af gæsaskyttu sem hafi verið við veiði í nágrenninu vopnaður riffli. Hrossin fann bóndinn dauð í haganum í síðustu viku.

Bóndinn sagði að blóð hafi runnið úr nösum beggja hrossa og þá hafi mátt sjá blóð á brjóstkassa annars þeirra. Bæði væru hrossin ung, folald og þriggja vetra stóðhestur.


Tengdar fréttir

Grunar að gæsa­skytta hafi drepið tvö ung hross með riffli

Hrossaræktandi, sem fann tvö ung hross dauð í túni sínu á dögunum, telur ljóst að þau hafi verið skotin af gæsaskyttu sem var við veiði í nágrenninu vopnaður riffli. Mikið tjón hafi hlotist af dauða hrossanna og hyggst hann tilkynna málið til lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.