Erlent

Vill borga óbólusettum löggum fyrir að flytja til Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur barist harkalega gegn margskonar aðgerðum gegn Covid-19. Hann hefur meðal annars meinað forsvarsmönnum skóla í ríkinu að setja á skyldugrímu.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur barist harkalega gegn margskonar aðgerðum gegn Covid-19. Hann hefur meðal annars meinað forsvarsmönnum skóla í ríkinu að setja á skyldugrímu. AP/Marta Lavandier

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, ætlar að greiða óbólusettum lögregluþjónum fimm þúsund dali fyrir að flytja til ríkisins og starfa þar. Hann segir vöntun á lögreglunum og segir að betur verði komið fram við þá en annars staðar þar sem lögregluþjónum er gert að fara í bólusetningu við Covid-19.

Í viðtali á Fox News í gær sagði DeSantis að enginn ætti að missa starf sitt vegna bólusetningarskyldu. Hvatti hann lögregluþjóna sem teldu illa komið fram við sig til að flytja til Flórída og hefja störf þar. Fyrir það fengju þeir fimm þúsund dali.

Þrátt fyrir að bandarískir lögregluþjónar hafi verið meðal þeirra fyrstu í heiminum sem fengu aðgang að bóluefni gegn Covid-19 eru marir þeirra enn óbólusettir. Samhliða bólusetningarskilyrðum í borgum og ríkjum víða í um Bandaríkin hafa óbólusettir lögregluþjónar deilt við stjórnmála- og embættismenn.

Það er þrátt fyrir að Covid-19 hefur leitt til dauða fjölmargra lögregluþjóna í Bandaríkjunum að undanförnu. Í síðustu viku sögðu CBS News frá því að minnst 716 starfandi lögregluþjónar hefðu dáið vegna Covid-19 frá mars 2020 og byggði það á tölum frá samtökum lögregluþjóna í Bandaríkjunum.

Á tímabilinu hefði fleiri lögregluþjónar dáið vegna Covid-19 en vegna nokkurs annars.

Washington Post segir að 182 lögregluþjónar hefðu dáið vegna Covid-19 í fyrra og minnst 133 á þessu ári. Það er byggt á tölum frá öðrum samtökum lögregluþjóna. New York Times vitnaði í enn ein samtökin fyrr í mánuðinum og sagði rúmlega 460 lögreglujóna hafa dáið eftir að hafa smitast af Covid-19 við störf. Það séu fjórfalt fleiri lögregluþjónar en hafi verið skotnir til bana á tímabilinu

Augljóst er að tölurnar eru á reiki og fer það að einhverju leyti eftir skilgreiningum. Einnig er þó augljóst að margir lögregluþjónar hafa dáið vegna Covid-19.

Samkvæmt gagnagrunni Johns Hopkins háskólans hafa minnst 735.992 Bandaríkjamenn dáið vegna Covid-19. Minnst 45, 4 milljónir manna hafa smitast. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×