Erlent

Bandaríkjamenn hyggjast fullbólusetja fimm til ellefu ára börn fyrir jól

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stúlka tekur þátt í prófunum á Covid-19 bóluefninu frá Pfizer.
Stúlka tekur þátt í prófunum á Covid-19 bóluefninu frá Pfizer. Shawn Rocco/Duke University/Reuters

Yfirvöld í Bandaríkjunum hyggjast hefja bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára í næsta mánuði. Anthony Fauci, sem fer fyrir sóttvörnum vestanhafs, segir stefnt að því að hópurinn verði búinn að fá einn skammt fyrir þakkagjörðarhátíðina og verði fullbólusettur fyrir jól.

Matar- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) birti skýrslu um umsókn Pfizer og BioNTech um neyðarheimild til notkunar bóluefnis fyrirtækjanna gegn Covid-19 fyrir börn. Ráðgjafanefnd FDA mun ræða málið á þriðjudag.

Fauci sagði í samtali við This Week á ABC að gögnin frá Pfizer litu vel út hvað varðaði virkni og öryggi. Samkvæmt niðurstöðum fyrirtækisins leiddu lyfjaprófanir í ljós að börnin sem fengu bóluefnið mynduðu öflugt ónæmissvar eftir að hafa fengið tvo skammta með þriggja vikna millibili.

Börnin fengu einn þriðja af þeim skammti sem gefinn er unglingum og fullorðnum.

Algengustu aukaverkanirnar voru þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkir og hrollur. Ekkert barnanna fékk hjartavöðvabólgu, eins og tilkynnt hefur verið hjá unglingsstrákum og mönnum.

Rochelle Walensky, forstjóri bandarísku sóttvarnastofnunarinnar (CDC) mætti í tvo sunnudagsþætti í dag og sagði að ákvörðun um notkun bóluefnisins meðal barna yrði tekin fljótlega. Margir foreldrar væru áhugasamir um að láta bólusetja börnin sín.

New York Times greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×