BBC fjallar um þetta og bendir á að færst hafi í aukana að knattspyrnufólk sé vegan og kjósi þannig að nota ekki dýraafurðir.
Chris Smalling, varnarmaður Roma, er til að mynda einn þeirra, enska D-deildarfélagið Forest Green Rovers er vegan knattspyrnufélag, og Chelsea varð í fyrra fyrsta enska úrvalsdeildarfélagið til að setja upp veganmatsölustað á heimavelli sínum.
Pogba og McCartney hafa nú þróað knattspyrnuskó með Adidas sem eru algjörlega vegan og gerðir úr endurunnu efni. United-maðurinn segir þau McCartney hafa tekið ákvörðunina þegar fótboltabann ríkti vegna kórónuveirufaraldursins, vorið 2020.
„Þetta var í miðju samkomubanni og ég saknaði fótboltans mikið, svo það var dásamlegt að geta einbeitt sér að einhverju sem sameinar ást mína á íþróttinni og ástríðu mína fyrir tísku,“ sagði Pogba.
„Ég er fyrst og fremst knattspyrnumaður en ég hef líka gríðarlegan áhuga á tísku og hönnun og hef alltaf viljað kynnast því nánar,“ sagði Pogba og kvaðst ekki geta beðið eftir að klæðast nýju skónum í leik. Næsti leikur United er stórleikurinn við Liverpool á sunnudag.