Fótbolti

„Fékk það í gjöf frá pabba að hugsa um yngri leikmenn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttir lék síðast með landsliðinu haustið 2019.
Sif Atladóttir lék síðast með landsliðinu haustið 2019. vísir/bára

Aldursforsetinn í íslenska kvennalandsliðinu segist hugsa vel um yngri leikmenn þess, eins og hún hafi alltaf gert.

Sif er komin aftur í íslenska landsliðið eftir tveggja ára fjarveru. Hún er einn reynslumesti leikmaður liðsins og elsti leikmaður þess, 36 ára. Framundan eru tveir leikir í undankeppni HM 2023.

Sif segist miðla af reynslu sinni og gera allt til að hjálpa yngri leikmönnum liðsins. Það viðhorf hafi hún fengið í arf frá föður sínum, Atla Eðvaldssyni.

„Í gegnum árin hef ég verið þannig leikmaður að ég reyni að vera til staðar fyrir þær yngri. Ég reyni að passa upp á að öllum líði vel og taka heimilislega stemmningu á þetta. Þetta er ekkert öðruvísi hlutverk en ég var með áður, hvort sem ég var í byrjunarliðinu eða ekki. Ég er alltaf sami leikmaður,“ sagði Sif á blaðamannafundi í gær.

„Ég fékk það í gjöf frá pabba að hugsa um yngri leikmenn því það skiptir máli og það eru þeir sem munu halda vegferðinni áfram. Ég er stolt af því að geta hjálpað þessum stelpum ef þær þurfa og mun alltaf standa við bakið á þeim, sama hvað.“

Ísland mætir Tékklandi annað kvöld og Kýpur á þriðjudaginn. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli. Íslendingar töpuðu 0-2 fyrir Evrópumeisturum Hollendinga í fyrsta leik sínum í undankeppninni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.