Fótbolti

Amanda valin í lið umferðarinnar í norsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amanda Andradóttir á ferðinni gegn Evrópumeisturum Hollands á Laugardalsvelli í sínum fyrsta A-landsleik.
Amanda Andradóttir á ferðinni gegn Evrópumeisturum Hollands á Laugardalsvelli í sínum fyrsta A-landsleik. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska landsliðskonan Amanda Jacobsen Andradottir kom inn á sem varamaður í síðasta leik Vålerenga en tókst engu að síður að vinna sér sæti í liði sextándu umferðarinnar norsku úrvalsdeildarinnar.

Amanda spilaði allan seinni hálfleikinn þegar Vålerenga vann 8-0 stórsigur á Arna-Björnar á útivelli.

Vålerenga var 2-0 yfir þegar Amanda kom inn á völlinn og lið hennar skoraði því sex mörk á þeim 45 mínútum sem hún spilaði.

Norska úrvalsdeildin velur úrvalslið hverrar umferðar og hér fyrir ofan má sjá að Amanda er í þriggja manna framlínu úrvalsliðsins.

Amanda skoraði sjöunda markið og lagði upp það áttunda en hún var kom einnig að undirbúningi eins marks í viðbót.

Þetta var síðasti leikur Amöndu með Vålerenga fyrir landsleikjahlé en hún er nú komin til Íslands til að undirbúa sig fyrir landsleiki á móti Tékkum og Kýpverjum á Laugardalsvellinum.

Alls átti Vålerenga sex af ellefu leikmönnum í úrvalsliðinu þar á meðal allar þrjár í framlínunni þar sem Amanda var með þeim Synne Sofie Kinden Jensen og Rikke Marie Madsen.

Hér fyrir neðan má sjá öll mörkin úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×