Innlent

Sigmundur vill að ríkisstjórnin grípi inn í

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, vill að ríkisstjórnin grípi inn í fyrirhugaða sölu Símans á Mílu.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Sigmundar þar sem hann segir að ríkisstjórnin, sem hann nefnir starfstjórn, þurfi að koma í veg fyrir sölu á „grunn-fjarskiptaneti landsins á meðan þingið hefur ekki komið saman og getur ekki gripið inn í,“ líkt og hann orðar það.

Síminn tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði skrifað undir samkomulag við alþjóðlega franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian France SA sem rekur Ardian Infrastructure Fund V, um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu Símans á dótturfélaginu Mílu ehf.

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu, en kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um allt land.

„Þegar ákveðið var að stjórnvöld myndu styðja við ljósleiðaravæðingu landsins gerðum við það ekki til að svo væri hægt að selja allt kerfið til útlanda.

Engin þróuð þjóð vill missa eigið fjarskiptakerfi og upplýsingarnar sem um það flæða út landi,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði í samtali við fréttastofu í dag að það væri ásættanlegt að Míla sé seld til erlendra aðila, að því gefnu að gengið sé frá ákveðnum úrlausnarefnum sem stjórnvöld telja upp á borði.

Viðræður ráðherra og fulltrúa söluaðilans, Símans, eru nýhafnar og er forsætisráðherra með löggjöf í undirbúningi sem ætlað er taka á innviðasölu til erlendra aðila.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði málefni Mílu hafa verið rædd í þjóðaröryggisráði þar sem ríki heims séu að setja sér reglur um það að það sé ákveðin rýni sem fari fram þegar um sé að ræða erlendar fjárfestingar í því sem kallað er „mikilvægir innviðir“.


Tengdar fréttir

Salan á Mílu á­sættan­leg að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir það ásættanlegt að Míla sé seld til erlendra aðila að því gefnu að gengið sé frá ákveðnum úrlausnarefnum sem stjórnvöld telja upp á borði. Viðræður ráðherra og fulltrúa söluaðilans, Símans, eru nýhafnar og er forsætisráðherra með löggjöf í undirbúningi sem ætlað er taka á innviðasölu til erlendra aðila.

Síminn langt kominn með sölu á Mílu til Frakklands

Síminn hefur skrifað undir samkomulag við alþjóðlega franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian France SA sem rekur Ardian Infrastructure Fund V, um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu Símans á dótturfélaginu Mílu ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar hvar bréf félagsins hafa hækkað um fimm prósent það sem af er morgni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×