Innlent

VG í snúinni stöðu vegna heil­brigðis­mála

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eiríkur Bergmann rýnir í stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrir lesendur Vísis.
Eiríkur Bergmann rýnir í stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrir lesendur Vísis. vísir

Ekkert hefur bent til annars en að sitjandi ríkis­stjórn haldi á­fram störfum sínum á næsta kjör­tíma­bili. For­menn flokkanna þriggja hafa fundað reglulega frá kosningum og má búast við að stjórnar­myndunar­við­ræðurnar haldi á­fram næstu vikurnar en eins og prófessor í stjórn­mála­fræði bendir á liggur þeim alls ekkert á að semja stjórnar­sátt­málann og geta tekið sér allan þann tíma sem þeim hentar.

For­mennirnir hafa haldið spilunum þétt að sér í viðræðum sínum og það hefur reynst erfitt að ná nokkrum fréttum af því sem gerist á þeirra fundum, eins og nokkrir stjórnar­þing­menn hafa sjálfir nefnt við blaða­mann. 

Helstu málin sem þeir hafa nefnt við fjöl­miðla fyrir síðustu fundi sína hafa verið orku­mál, fé­lags­mál og lofts­lags­mál.

„En ég held að það sé nú reyndar mjög til­viljana­kennt hvað af því sem rætt er við borðið kemur út og dúkkar upp í fréttum,“ segir Ei­ríkur Berg­mann, prófessor í stjórn­mála­fræði, í sam­tali við frétta­mann sem sló á þráðinn til hans til að fiska eftir greiningu á stjórnar­myndunar­við­ræðunum.

Hann telur nokkuð ljóst að ríkis­stjórnin muni halda á­fram á næsta kjör­tíma­bili. „Það er alla­vega ekkert sem hefur komið fram sem bendir til annars en þau séu ein­fald­lega bara að ræða sig að niður­stöðu.“

Það taki þó ef­laust tíma fyrir flokkana að ná saman eftir síðasta kjör­tíma­bil.

VG verði að gefa eftir í heilbrigðismálunum

„Stað­reynd málsins er auð­vitað sú að það er feiki­lega langt á milli þessara flokka í gríðar­stórum málum. Og eigin­lega í grund­vallar­málum. Það er bara stóri vandinn og mikil á­skorun fyrir þá að ná saman um þau núna. Og það má segja að það sé auð­veldara fyrir svona flokka að starfa saman yfir styttri tíma þar sem hægt er að fresta stóru á­greinings­málunum þar sem er al­ger gjá á milli flokkanna.

En eftir því sem tíminn líður þá verður meira að­kallandi að takast á við slík mál sem svona ríkis­stjórn getur í raun ekki gert annað en bara sett til hliðar.“

Við nefnum heil­brigðis­málin sem dæmi.

„Heil­brigðis­kerfið hefur setið á hakanum vegna önd­verðrar af­stöðu pólanna tveggja í þessari ríkis­stjórn til þessa. Og það gat gengið í ein­hvern tíma, bara að halda horfinu og lappa upp á kerfið frekar heldur en að takast á við grund­vallar­mál í því. En það held ég að sé ein­fald­lega ekki hægt lengur og nú þurfi flokkarnir að takast á við slík mál,“ segir Ei­ríkur.

Það mátti greina af tali þing­manna ríkis­stjórnar­flokkanna undir lok síðasta kjör­tíma­bils að Sjálf­stæðis­menn vildu hleypa meiri einka­rekstri inn í heil­brigðis­kerfið til að létta á Land­spítalanum og Fram­sóknar­menn töluðu á svipaða leið. 

Vinstri græn hafa aftur á móti verið mjög and­snúin slíkri hug­mynda­fræði og hefur Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra staðið í vegi fyrir ýmsum breytingum í þá átt. Margir þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins sem blaða­maður hefur rætt við hafa farið afar hörðum orðum um störf Svan­dísar og má greina mikla and­stöðu úr þeirra röðum við að hún fái að halda á­fram sem heil­brigðis­ráð­herra.

„VG mun alveg örugg­lega þurfa að gefa eftir í þessu máli eins og mörgum öðrum. Það blasir við,“

segir Ei­ríkur og bætir svo við: „Alveg eins og hinir flokkarnir þurfa að gefa eftir í á­kveðnum málum líka.“

Erfiðast fyrir VG að lifa með hinum flokkunum

Hann segir þó ó­mögu­legt að spá fyrir um hvort Svan­dís haldi á­fram sem heil­brigðis­ráð­herra.

„En það er ekkert ó­eðli­legt að heil­brigðis­málin skipti um hendur við þessar að­stæður sem eru uppi núna.“

Hann telur við­ræðurnar erfiðastar fyrir VG.

„Að mörgu leyti er snúnara fyrir VG að ná lendingunni. Og mér sýnist það verða snúnara fyrir VG að lifa með þessu. En það sýndi sig nú reyndar á síðasta kjör­tíma­bili að þau hafi fundið ágæta leið til þess,“ segir Ei­ríkur.

Engin stór baráttumál hjá Framsókn

Við spyrjum hann út í kosninga­sigur Fram­sóknar og hvort hann styrki ekki stöðu Sigurðar Inga Jóhanns­sonar í stjórnar­myndunar­við­ræðunum. Hvaða mál vill Fram­sókn koma inn í stjórnar­sátt­málann?

„Í þessari ríkis­stjórn hefur Fram­sóknar­flokkurinn verið svona eins og jafn­vægi­s­punkturinn í vega­saltinu á milli Sjálf­stæðis­flokksins og VG þannig ég held nú að fram­sóknar­flokkurinn hafi unað hag sínum mjög vel, mál­efna­lega séð, í þessu stjórnar­sam­starfi,“ segir Ei­ríkur.

„Þannig það eru í rauninni ekki stór bar­áttu­mál hjá Fram­sókn, sýnist mér, sem þau eru eitt­hvað að reyna að lemja í gegn. Það er bara ein­fald­lega ekki þannig vegna þess að hin mál­efna­lega þunga­miðja hefur bara legið hjá þeim.

Þetta snýst kannski frekar um að Fram­sókn sér fyrir sér að fá eitt­hvað meira vægi í næstu ríkis­stjórn heldur en í þeirri fyrri.“

Hann nefnir þar mögu­leikann á nýju ráðu­neyti sem Fram­sókn fengi í hendurnar eða hug­mynd sem nokkuð hefur borið á undanfarið um að breyta sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráðu­neytinu í inn­viða­ráðu­neyti, sem fleiri mála­flokkar myndu heyra undir, og Sigurður Ingi fengi að ráða yfir.

Sjálfstæðismenn þurfi ekki að búa við ónot

En hvað með Sjálf­stæðis­menn? Þeir voru margir hverjir orðnir afar þreyttir á sam­starfinu við Vinstri græn. Höndla þeir annað kjör­tíma­bil?

„Já, já. Mér finnst það ekkert úti­lokað. Miðað við þessa niður­stöðu kosninganna þá held ég það nú. Þeir ættu ekkert að þurfa að búa við of mikil ónot í þessu sam­starfi,“ segir Ei­ríkur.


Tengdar fréttir

Gefa sér þann tíma sem þarf

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir hann og formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, vilja vanda sig í stjórnarmyndunarviðræðum. Það séu áskoranir í viðræðunum sem hafi ekki verið leystar á síðustu fjórum árum og það sé verið að vinna í því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×