Innlent

Ruddust inn með leitarheimild til að taka refinn en gripu í tómt

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Refurinn Gústi Jr. hefur vakið talsverða athygli upp á síðkastið. MAST er ekki hrifin af uppátækjum samfélagsmiðlastjörnunnar og eiganda refsins, Gústa B.
Refurinn Gústi Jr. hefur vakið talsverða athygli upp á síðkastið. MAST er ekki hrifin af uppátækjum samfélagsmiðlastjörnunnar og eiganda refsins, Gústa B. aðsend

Ágústi Bein­teini Árna­syni brá heldur betur í brún þegar tveir ein­kennis­klæddir lög­reglu­menn mættu að heimili hans á­samt full­trúa Mat­væla­stofnunar (MAST) í síðustu viku með hús­leitar­heimild. Mark­miðið var að finna og taka af Ágústi, sem er kallaður Gústi B, ref sem hann hefur haldið síðasta eina og hálfa mánuðinn, Gústa Jr. Þeir gripu þó í tómt.

Gústa finnst málið allt farið að líkjast farsa og segist í sam­tali við frétta­stofu hafa fundið það á lög­reglu­mönnunum að þeim þætti þetta einnig heldur hlægi­legt mál.

„Ég held þeir hafi nú margt betra að gera en að leita að TikTok refum. Ég sá það nú svona á svipnum á þeim að þetta var ekki brýnasta verk dagsins,“ segir Gústi. „Þeir voru mjög al­menni­legir og hrósuðu mér meira að segja fyrir heima­stúdíóið mitt en ég er dug­legur að taka upp mína eigin tón­list hérna heima.“

Telur allt framferði MAST undarlegt

Hann segir starfs­mann MAST hafa verið öllu forhertari og staðráðinn í að finna refinn. 

„Mér fannst þetta svoldið spes. Ég er ó­sáttur með að­ferðir Mat­væla­stofnunar í þessu máli og líka hissa á hæsta­réttar­dómara að hafa heimilað þessa hús­leit,“ segir Ágúst.

„Ég veit líka ekki af hverju ein­hver full­trúi frá MAST var mættur inn í eld­hús til mín. Ég er ekki viss um að hæsta­réttar­dómari geti heimilað fólki frá Mat­væla­stofnun að mæta heim til fólks þó þeir geti veitt lög­reglu hús­leitar­heimild.“

Lög­regla og Mat­væla­stofnun gripu þó í tómt. Refinn var hvergi að finna heima hjá Gústa. Hann vill þó ekkert gefa upp um stað­setningu refsins. „Hann er ó­hultur frá eftir­lits­mönnum Mat­væla­stofnunar. Og mér skilst á honum að hann hafi engan á­huga á að fara með þeim.“

Ágústi fannst brotið á frið­helgi einka­lífs síns þegar lög­regla og sér­stak­lega full­trúi MAST ruddust inn á heimili hans og eins og Vísir greindi frá í gær hefur hann ráðið til sín lög­menn frá Norð­dahl lög­manna­stofu til að að­stoða sig í málinu.

„Þegar ég stóð þarna í eigin eld­húsi og horfði á full­trúa MAST skoða í skápana mína þá áttaði ég mig á því að það væri eitt­hvað bogið við þessi vinnu­brögð,“ segir Gústi.

Refurinn hefði það ekki af í Húsdýragarðinum

Spurður hvort hann skilji ekki sjónar­mið MAST í málinu sem vill taka af honum refinn því bannað sé að halda villt dýr sam­kvæmt lögum segir Gústi að refurinn sé ekki villtur.

„Ég fékk hann í hendurnar fyrir einum og hálfum mánuði og það er alveg ljóst að þessi refur hefur alist upp meðal mann­fólks. Þannig að hann er sam­kvæmt skil­greiningu gælu­dýr en ekki villt dýr. Hann myndi aldrei lifa það af að vera sleppt út í náttúruna og það sér hver maður að hann myndi heldur ekki lifa það af að vera sleppt inn í Hús­dýra­garðinn með villtum refum,“ segir hann. Hann vill ekkert gefa upp um hvar hann fékk refinn.

„Það er fólk sem heldur hrafna og svona og aldrei hefur MAST bankað upp á hjá þeim. Og það er fólk úti á landi sem að heldur svona refi – MAST lítur alveg fram hjá því og þetta er bara brot á jafn­ræðis­reglunni að veita mér eitt­hvað rosa­legt að­hald fyrir þetta en líta fram hjá því hjá öðrum á lands­byggðinni,“ segir Gústi.


Tengdar fréttir

Of seint fyrir Gústa að að­lagast náttúrunni og sam­búðin versni þegar hann þroskast

„Gústi refur hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu og þá sérstaklega „eigandi“ hans Tiktok stjarnan Ágúst Beinteinn Árnason. Refur þessi er haldinn að því er virðist í miðborg Reykjavíkur þar sem hann er í tjóðri eiganda síns honum til skemmtunar. Það þarf að sjálfsögðu ekki að fjölyrða um að hér er um lögbrot að ræða, enda refir villt dýr sem ekki má halda án sérstaks leyfis.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.