Innlent

Skil­orðs­bundið fangelsi fyrir brot gegn sam­starfs­konu í vinnu­ferð

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Vísir/Vilhelm

Kona var í gær dæmd til tveggja mánaða fangelsisrefsingar, sem fresta skal til tveggja ára haldi hún almennt skilorð, fyrir að brjóta kynferðislega gegn samstarfskonu sinni í vinnuferð til Reykjavíkur árið 2019.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að brotið hafi verið framið á Fosshóteli Lind við Rauðarárstíg þegar konurnar voru í vinnuferð utan að landi.

Konunni var gefið að sök að hafa, þegar konurnar lágu hlið við hlið í samliggjandi rúmum á hótelherbergi, áreitt samstarfskonu sína kynferðislega. Það hafi hún gert með því að taka um hönd hennar og látið hana strjúka nakinn líkama sinn.

Þegar samstarfskonan hafi gefið til kynna að hún vildi ekki strjúka ákærðu hafi hún strokið henni utanklæða frá brjóstum niður að læri.

Í framhaldinu, þegar samstarfskonan hafði fært sig út á brún rúmsins og vafið utan um sig sæng, hafi konan lagt andlit sitt upp að andliti hennar og sagt: „Við skulum bara hafa það kósý.“, „Er þetta ekki gott?“ og „Er þetta ekki bara bara kósý?“

Til vara var konan ákærð fyrir brot gegn blygðunarsemi samstarfskonunnar.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að frásögn samstarfskonunnar af atvikum umræddrar nætur væri trúverðug, gegn neitun konunnar.

Dómurinn styður niðurstöðuna meðal annars við frásögn annarra kvenna sem voru með í vinnuferðinni og álit sálfræðings um andlegt ástand samstarfskonunnar. Hún þjáist meðal annars af áfallastreituröskun og þunglyndi eftir atvikið.

Sem áður segir var konan dæmd til tveggja mánaða fangelsisvistar, sem skal frestað til tveggja ára haldi hún almennt skilorð, fyrir kynferðislega áreitni.

Þá var konan dæmt til að greiða samstarfskonu sinni 450 þúsund krónur í miskabætur og ríkissjóði um 1,3 milljón í sakarkostnað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.