Fótbolti

Hundrað knattspyrnumönnum komið í burtu frá Afganistan

Sindri Sverrisson skrifar
Kvennalandsliði Afganistans var komið á fót árið 2007. Liðið lék vináttulandsleik við lið öryggishjálpar NATO í Kabúl árið 2010 þar sem þessi mynd var tekin.
Kvennalandsliði Afganistans var komið á fót árið 2007. Liðið lék vináttulandsleik við lið öryggishjálpar NATO í Kabúl árið 2010 þar sem þessi mynd var tekin. Getty

Um það bil 100 knattspyrnumenn, karlar og konur, voru fluttir ásamt fjölskyldum sínum frá Afganistan til Doha í Katar í gær. Í hópnum voru 20 landsliðsmenn, samkvæmt frétt BBC.

Stjórnvöld í Katar unnu með FIFA, alþjóða knattspyrnusambandinu, að verkefninu. Samkvæmt heimildum BBC vinnur FIFA að því að koma fleira knattspyrnufólki og fjölskyldum þeirra frá Afganistan eftir að Talíbanar tóku yfir stjórn landsins í ágúst.

Khalida Popal, fyrrverandi fyrirliði kvennalandsliðs Afganistan sem búsett er í Danmörku, varaði knattspyrnukonur við þegar Talíbanar tóku yfir. Hún sagði þeim að eyða fótboltamyndum af sér af samfélagsmiðlum og brenna fótboltabúninga sína til að reyna að forðast refsiaðgerðir Talíbana.

Í frétt BBC segir að margar af knattspyrnukonum Afganistan hafi verið í felum síðan í ágúst. FIFA og leikmannasamtökin FIFPro skrifuðu ríkisstjórnum margra landa bréf og óskuðu eftir aðstoð.

Í síðasta mánuði sluppu leikmenn yngri kvennalandsliða Afganistans yfir landamærin til Pakistan eftir að hafa verið í felum vikum saman af ótta við stefnu Talíbana gagnvart réttindum kvenna.

Konum var meinað að stunda íþróttir síðast þegar Talíbanar voru við völd í Afganistan, á árunum 1996-2001.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.