Erlent

Demókratar í þröngri stöðu fá liðsauka frá repúblikönum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríska þinghúsið. Kosið verður til fulltrúadeildarinnar og hluta öldungadeildarinnar á næsta ári.
Bandaríska þinghúsið. Kosið verður til fulltrúadeildarinnar og hluta öldungadeildarinnar á næsta ári. Vísir/EPA

Hópur repúblikana sem er andsnúinn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, ætlar að lýsa yfir stuðningi við nokkra sitjandi þingmenn demókrata sem sjá fram á erfiðan endurkjörsslag í þingkosningum á næsta ári. 

Hreyfingin um endurnýjun Bandaríkjanna (RAM) var stofnuð af hófsömum repúblikönum skömmu eftir að æstur hópur stuðningsmanna Trump réðst á þinghúsið og reyndi að koma í veg fyrir að þingmenn staðfestu kjör Joes Biden sem forseta í janúar.

Hópurinn hefur nú gefið upp alla von um að Repúblikanaflokkur þeirra losi sig úr hreðjataki Trump og stoðlausra samsæriskenninga hans um að hann hafi verið fórnarlamb stórfelldra kosningasvik. Því ætlar hópurinn að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að repúblikanar nái aftur meirihluta á Bandaríkjaþingi í kosningum á næsta ári.

Demókratar eru mun nauman meirihluta í fulltrúadeildinni og flokkarnir tveir eru með jafnmarga þingmenn í öldungadeildinni. Kamala Harris, varaforseti, getur greitt úrslitaatkvæði ef atkvæði falla jöfn í öldungadeildinni.

Þeir ætla þó ekki aðeins að styðja demókrata í kröppum dansi heldur einnig fámennan hóp þingmanna Repúblikanaflokksins sem andæfði Trump, þar á meðal Liz Cheney sem greiddi atkvæði með því að kæra Trump fyrir embættisbrot vegna aðildar hans að árásinni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Repúblikanar spörkuðu Cheney úr forystusveit sinni í fulltrúadeildinni fyrir vikið. Flestir kjörnir fulltrúar flokksins hafa tekið trú Trump á að svindlað hafi verið í forsetakosningunum í fyrra.

„Í ljósi vaxandi ógnar við lýðræðið og stjórnarskrána okkar þurfum við á fólki að halda sem vinnur gagngert að því að leiða flokk sinn og landið frá pólitískum öfgum,“ segir Joel Searby, einn stjórnenda RAM við Reuters.

Kosið er um öll sæti í fulltrúadeild þingsins og rúman þriðjung sæta í öldungadeildinni í kosningunum sem fara fram 8. nóvember á næsta ári. Algengt er að flokkur forsetans tapi þingsætum í kosningum á miðju kjörtímabili.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.