Fótbolti

Færði krökkunum í Sandgerðisskóla gjöf eftir landsleikina

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Anderson heilsaði upp á krakkana í Sandgerðisskóla þar sem hann sat sjálfur á skólabekk fyrr á þessari öld.
Mikael Anderson heilsaði upp á krakkana í Sandgerðisskóla þar sem hann sat sjálfur á skólabekk fyrr á þessari öld. sandgerdisskoli.is og Vísir/Jónína

Mikael Neville Anderson, landsliðsmaður í fótbolta, gaf sér tíma til að heimsækja sinn gamla grunnskóla í Sandgerði og heilsa upp á nemendur eftir leikina við Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Greint er frá heimsókn Mikaels á heimasíðu Sandgerðisskóla þar sem segir að þessi fyrrverandi nemandi hafi óvænt birst og fært skólanum að gjöf landsliðstreyju sína úr leik Íslands við Liechtenstein á mánudagskvöldið.

Mikael bjó ungur að árum í Sandgerði en þegar hann var 11 ára gamall fluttist hann til Danmerkur þar sem hann lék með yngri flokkum Harlev, AGF og Midtjylland upp unglingsárin.

Mikael gat því valið á milli þess að spila með landsliðum Íslands og Danmerkur. Pabbi hans, Neville, er frá Jamaíku en María móðir hans íslensk. Mikael lék fyrir yngri landslið bæði Danmerkur og Íslands áður en hann ákvað svo að halda sig við íslenska landsliðsbúninginn.

Hann hóf meistaraflokksferilinn með Midtjylland en er á ný leikmaður AGF í dag þar sem hann spilar með Jóni Degi Þorsteinssyni, félaga sínum í landsliðinu.

Þessi 23 ára kantmaður lék sinn fyrsta A-landsleik í janúar 2018, gegn Indónesíu, og hefur nú alls leikið ellefu landsleiki og skorað eitt mark. Mikael kom inn á sem varamaður gegn Armeníu í 1-1 jafnteflinu síðasta föstudag en treyjan sem Sandgerðisskóli fékk að gjöf ætti að vera nokkuð hrein þar sem Mikael var varamaður gegn Liechtenstein.

Mikael Anderson kom við í Sandgerði á leið heim til Danmerkur en næst á dagskrá hjá honum er leikur með AGF við AaB á sunnudaginn. Næstu landsleikir eru um miðjan nóvember en þeir fara fram í Rúmeníu og Norður-Makedóníu.sandgerdisskoli.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×