Fótbolti

Ferðast í sextán tíma af bekknum í bikarúrslitaleikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Pablo Punyed er á leið heim til Íslands og ætlar sér sjálfsagt að handleika annan verðlaunagrip á Laugardalsvelli á laugardaginn, eftir að hafa orðið Íslandsmeistari á dögunum.
Pablo Punyed er á leið heim til Íslands og ætlar sér sjálfsagt að handleika annan verðlaunagrip á Laugardalsvelli á laugardaginn, eftir að hafa orðið Íslandsmeistari á dögunum. vísir/hulda margrét

Pablo Punyed er nú á heimleið frá El Salvador til Íslands og ætti að vera mættur í tæka tíð til að spila með Víkingi gegn ÍA í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á laugardaginn.

Pablo, sem er lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Víkings, var valinn í landsliðshóp El Salvador vegna þriggja leikja í undankeppni HM. Síðasti leikurinn var gegn Mexíkó í nótt þar sem Pablo var á bekknum í 2-0 tapi El Salvador á heimavelli.

Ljóst er að flugferð hans heim til Íslands tekur, með stoppum, að minnsta kosti um 16 klukkutíma. Pablo verður því á ferðalagi í allan dag en hefur svo morgundaginn til að jafna sig áður en flautað verður til leiks á Laugardalsvelli klukkan 14 á laugardaginn.

Sex Víkingar í landsliðsverkefnum

El Salvador er með fimm stig eftir sex umferðir af 14 í undankeppni Mið- og Norður-Ameríku, í næstneðsta sæti riðilsins. Mexíkó er efst með 14 stig, Bandaríkin í 2. sæti með 11 og Kanada í 3. sæti með 10 stig, en þrjú lið komast beint á HM og eitt lið í umspil.

Þó að Kári Árnason hafi ekki verið valinn í íslenska landsliðið fyrir síðustu landsleiki þá hafa fleiri leikmenn Víkings en Pablo verið í landsliðsverkefnum í aðdraganda bikarúrslitaleiksins.

Atli Barkarson, Viktor Örlygur Andrason, Kristall Máni Ingason og Karl Friðleifur Gunnarsson voru allir í U21-landsliðshópnum sem mætti Portúgal á þriðjudaginn. Þá var Kwame Quee í landsliði Síerra Leóne og bar fyrirliðabandið í vináttulandsleik, svo alls sex leikmenn Víkings voru í landsliðsverkefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×