Erlent

Það verða að vera afleiðingar segir refsiglaður dómari

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill fjöldi mótmælenda gerði áhlaup á þinghús Bandaríkjanna í janúar.
Mikill fjöldi mótmælenda gerði áhlaup á þinghús Bandaríkjanna í janúar. Brent Stirton/Getty Images

Dómari í Washington-borg Bandaríkjanna hefur farið þá leið að dæma sakborninga sem ákærðir voru fyrir þátttökuí áhlaupinu á þinghús Bandaríkjanna í janúar til þyngri refsingar en ákæruvaldið hefur sóst eftir. Dómarinn segir að hegðun áhlaupsmanna verði að hafa afleiðingar.

Reuters greinir frá og segir að undanförnu hafi alríkisdómarinn Tanya Chutkan dæmt fjóra einstaklinga sem tóku þátt í áhlaupinu til þyngri refsingar en farið var fram á að hálfu ákæruvaldsins.

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa gengið um þinghúsið á ólögmætan hátt og tekið þátt í ólöglegum mótmælum. Viðkomandi höfðu allir játað sig seka en um minniháttar brot er að ræða.

Fjölbreytt flóra mótmælenda komst inn í þinghúsið.Brent Stirton/Getty Images

Þannig dæmdi Chutkan tvo frændur sem tóku þátt í áhlaupinu og tóku sjálfsmyndir af sér í 45 daga fangelsi, saksóknari hafði hins vegar bara farið fram á þrjátíu daga fangelsi. Áður hafði Chutkan dæmt annan sakborning í tveggja vikna fangelsi, þvert á tillögu saksóknara sem lagði til skilorðsbundin dóm.

„Það að hafa tekið þátt í atlögu að alríkisstjórn Bandaríkjanna verður að hafa meiri afleiðingar en það að sitja heima hjá sér,“ sagði Chutkan í einum af réttarhöldunum.

650 ákærðir

Alls hafa 650 verið ákærðir fyrir þátt sinn í áhlaupinu þegar stuðningsmenn Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gátu ekki sætt sig við úrslit forsetakosninganna og gerðu áhlaup á þinghúsið 6. janúar þegar þingheimur var við það að staðfesta úrslit kosninganna. Fjórir létust í áhlaupinu og fjölmargir slösuðust.

Hundrað manns hafa játað sig seka og sautján af þeim hafa þegar hlotið dóm. Chutkan var skipuð í embætti alríkisdómara af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.


Tengdar fréttir

Trump krefst þess að komast aftur á Twitter

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur höfðað mál gegn Twitter í Texas. Hann krefst þess að verða hleypt aftur inn á samfélagsmiðilinn eftir að hafa verið bannaður þar í kjölfar árásarinnar á þinghúsið í Bandaríkjunum þann 6. janúar.

Telja ekki að árásin á þinghúsið hafi verið þaulskipulögð

Fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar segjast hafa fundið fáar vísbendingar um að árás hóps stuðningsmanna Donalds Trump á bandaríska þinghúsið í janúar hafi verið skipulögð til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna í nóvember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×